Stúlkur á Ísafirði brutu ísinn 1914

Á myndinni, sem var tekin14. júlí 1914, eru stúlkurnar í …
Á myndinni, sem var tekin14. júlí 1914, eru stúlkurnar í fyrsta og eina kvenna-knattspyrnufélaginu á Íslandi, Hvöt á Ísafirði.

Vagga knattspyrnu kvenna hérlendis er á Ísafirði. „Fótboltafélag Ísafjarðar var stofnað 1912. Samkvæmt lögum þess gátu eingöngu piltar orðið félagar og þess vegna stofnuðu stúlkur Kvennaknattspyrnufélagið Hvöt árið 1914 og starfræktu í þrjú ár,“ segir Sigmundur Ó. Steinarsson, rithöfundur, blaðamaður til áratuga og fyrrverandi fréttastjóri íþrótta á Morgunblaðinu. Sigmundur er hafsjór fróðleiks og vinnur nú að bók um knattspyrnu kvenna á Íslandi, frá upphafi til þessa dags, fyrir Knattspyrnusambandið.

„Stúlkurnar á Ísafirði æfðu og léku á hrossataðsvöllum, á Tangstúni og Riistúni, 1914 til 1916. Þær voru á aldrinum 13-19 ára, meðalaldur 15,8 ára,“ sagði Sigmundur í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins, í tilefni þess að Evrópukeppni kvenna er framundan í Hollandi. Íslenska kvennalandsliðið tekur nú þátt í þriðju lokakeppni EM í röð.

Kjarnorkukonur sem settu svip á bæinn

„Einar Oddur Kristjánsson gullsmiður var leiðbeinandi stúlknanna. Hann var frá Vopnafirði en fluttist til Ísafjarðar árið 1910, eftir nám í gullsmíði í Danmörku, þar sem hann kynntist knattspyrnu,“ segir Sigmundur.

Driffjaðrirnar í stofnun og starfsemi Hvatar voru Guðrún Skúladóttir og Bergþóra Árnadóttir. Félaginu var skipt í tvær fylkingar til keppni og voru þær Guðrún og Bergþóra fyrirliðar hópanna. „Þetta voru kjarnorkukonur sem settu mikinn svip á bæinn í mörg ár í alls kyns félagsskap, meðal annars í leikfélaginu,“ segir Sigmundur.

„Guðrún var góð söngkona og stundaði um tíma söngnám í Kaupmannahöfn. Hún tók þátt í mörgum söngskemmtunum á Ísafirði undir stjórn móðurbróður síns, Jónasar Tómassonar, tónskálds, organista og skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar, sem Jónas stofnsetti 1911 og var fyrsti tónlistarskóli Íslands. Jónas giftist Önnu Ingvarsdóttur, sem var liðsmaður Hvatar. Guðrún söng t.d. á konsertum með Sigvalda Kaldalóns er hann heimsótti Ísafjörð og kynnti alþekkt og vinsæl sönglög sín.“

Á þeim tíma sem ísfirsku stúlkurnar stofnuðu Hvöt átti Reykvíkingurinn Anna Borg sér þann draum að stofna fótboltafélag fyrir stúlkur. Anna, síðar fræg leikkona, kom á fót félagi árið 1915, hafði ekki vitneskju um starfsemi Hvatar á Ísafirði og félagið hóf í raun aldrei starfsemi.

„Önnu dreymdi um að verða brautryðjandi í knattspyrnu eins og móðir hennar, Stefanía Guðmundsdóttir leikkona, var brautryðjandi í danslist hér á landi,“ segir Sigmundur Ó. Steinarsson.

Skemmtilegra að dansa en sparka bolta

Hann segir fámennan hóp 11 til 13 ára stúlkna í miðbæ Reykavíkur hafa verið með Önnu.

„Það hefur þó tæpast verið móður minni neitt rífandi fagnaðarefni, þegar ég á tólfta ári [1915] vildi sjálf gerast brautryðjandi. Vinkonur mínar og ég höfðum fengið þá ljómandi hugmynd að stofna knattspyrnufélag,“ segir Anna í endurminningum sínum.

Sigmundur segir að æfingar hafi loks getað hafist eftir mikil fundahöld um búninga. „En smátt og smátt rann móðurinn af Íslands fyrstu knattspyrnukonum – sennilega vegna þess að okkur bárust til eyrna þau geigvænlegu tíðindi að maður fengi stóra fætur af að vera í fótbolta! Og það var þróun sem engri okkar leist á. Félagið var lagt niður – knattspyrnuferli mínum var lokið,“ segir Anna.

„Ég veit það ekki með vissu, en ekki kæmi mér á óvart þó rekja mætti orðróminn um stóru fæturna til móður minnar,“ segir Anna ennfremur. „Hún hafði að vísu aldrei með einu orði látið í ljós vanþóknun sína á þessari kvenfélagsstarfsemi okkar, en jafnan gætt þess að ég slægi ekki slöku við við dansæfingarnar, og satt að segja þótti mér miklu skemmtilegra að dansa en sparka bolta.“

Litlum sögum fer af knattspyrnuiðkun kvenna hérlendis aftur fyrr en 1949 þegar fimleikastúlkur úr ÍR, KR og Ármanni léku á grasbala í Tívolí í Vatnsmýrinni í fjáröflunarskyni fyrir félögin. „Þetta var skemmtiatriði og sagt var að áhorfendur hefðu skemmt sér konunglega yfir tilburðum stúlknanna,“ segir Sigmundur Ó. Steinarsson.

Síðan hefur mikið vatn runnið úr Vatnsmýrinni.

Frá vinstri: Rakel Hönnudóttir, Guðrún Skúladóttir og Fanndís Friðriksdóttir.
Frá vinstri: Rakel Hönnudóttir, Guðrún Skúladóttir og Fanndís Friðriksdóttir.

Frænka EM-fara stofnaði fyrsta og eina kvennafélagið

Guðrún Skúladóttir var önnur aðaldriffjöðrin í hópnum sem stofnaði Kvennaknattspyrnufélagið Hvöt á Ísafirði 1914. Hún var þá á 18. aldursári. Tómas Jónasson, bóndi og fræðimaður á Hróarsstöðum í Fnjóskadal, var móðurafi hennar en meðal annarra afkomenda hans eru tvær af landsliðskonunum sem leika fyrir Íslands hönd á EM í Hollandi, Fanndís Friðriksdóttir og Rakel Hönnudóttir. Tómas var langalangalangafi Fanndísar í móðurætt en langalangalangalangafi Rakelar í móðurætt!

„Tómas Jónasson var sagður léttur á fæti, lipur og kunni handahlaup!“ segir Sigmundur Ó. Steinarsson. Vert er að geta þess að fleiri A-landsliðs-menn í fótbolta eru afkomendur Tómasar; annars vegar Lárus Orri og Kristján Sigurðssynir, hins vegar Þorvaldur og Ormarr Örlygssynir. Einnig Lillý Rut Hlynsdóttir, leikmaður Þórs/KA og fyrirliði landsliðs U-19.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka