Heyr himnasmiður í Handmaid's Tale

Nokkrar af aðalpersónum Handmaid's Tale; þernurnar sem eiga að fjölga …
Nokkrar af aðalpersónum Handmaid's Tale; þernurnar sem eiga að fjölga mannkyninu.

Lagið Heyr himnasmiður í flutningi Hildar Guðnadóttur er að finna í tveimur þáttum hinnar gríðarvinsælu þáttaraðar Handmaid's Tale. Í bæði skiptin tengist lagið einni aðalpersónunni í mjög svo dramatískum aðstæðum. Annað lag Hildar, Erupting Light, heyrist einnig í þáttunum.

Hildur Guðnadóttir.
Hildur Guðnadóttir.

Þættirnir Handmaid's Tale byggja á metsölubók eftir kanadíska rithöfundinn Margaret Atwood. Sagan gerist í framtíðinni í ríkinu Gilead er stofnað hefur verið á svæði sem áður var Boston. Þar ríkir stjórn sem lítur á konur sem eign ríkisins, stríðir við umhverfishnignun og hríðlækkandi fæðingartíðni. Í örvæntingafullri tilraun til að manna heim á barmi tortímingar eru hinar fáu frjóu konur sem eftir eru neyddar til að geta og ganga með börn heldra fólks.

Bókin kom út árið 1985 og hlaut misjafnar viðtökur, en nú þegar þættirnir voru frumsýndir árið 2017 þykja þeir óhugnanlega trúanleg framtíðarsýn.

Tónverk við elsta sálminn

Heyr himnasmiður er tónverk Þorkels Sigurbjörnssonar við sálm Kolbeins Tumasonar. Sálmurinn er talinn ortur við upphaf þrettándu aldar. Lagið kom út í flutningi Hildar á plötu hennar Saman árið 2014. 

„Ég hef haft í svo mörgu að snúast undanfarið að ég hef ekki séð þættina sjálf,“ segir Hildur í samtali við mbl.is. Hún er búsett í Berlín þar sem hún vinnur um þessar mundir að tónlist kvikmyndarinnar Soldado sem er væntanleg í kvikmyndahús í október. Hún hefur fengið mikil viðbrögð við lögum sínum í Handmaid's Tale og segir að fólki finnist áhugavert að heyra íslensku í þessum vinsælu þáttum.

Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðið.

Í 2. þætti þáttaraðarinnar er ein aðalpersónan að fæða barn og þá má heyra hendingar úr Heyr himnasmiður. Í 3. þætti er lagið Erupting Light leikið í átakanlegu atriði. Í 9. þætti má enn og aftur heyra hendingar úr Heyr himnasmiður og þá heyrast nokkrar línur sungnar. 

Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðið

Aðstandendur þáttanna höfðu samband við útgefanda Hildar fyrir nokkru og báðu um leyfi til að hafa tónlist hennar í þeim. Hildur veit ekki hvernig hugmynd þeirra að lagavalinu kviknaði. „Þessir þættir litu vel út og eru mjög vandaðir,“ segir Hildur um Handmaid's Tale. 

Heyr himnasmiður er í miklu uppáhaldi hjá Hildi. Höfundurinn Þorkell Sigurbjörnsson var kennari hennar á árum áður. „Þetta er eitt fallegasta lag sem samið hefur verið,“ segir hún. „Ég hafði svo einhvern tímann samband við hann og bað um leyfi til að gera „cover-útgáfu“ af laginu og hann tók rosa vel í það.“

Vinnan á lokametrunum

Hildur leikur á selló í laginu og syngur það einnig.

En nú er hugur Hildar nær alfarið við kvikmyndina Soldado sem er framhaldsmynd Sicario sem kom út árið 2015. Jóhann Jóhannsson gerði tónlistina við þá mynd og hlaut Óskarstilnefningu fyrir. Með aðalhlutverk í Soldado fara m.a. Isabela Moner, Josh Brolin og Benicio Del Toro.

„Þetta er frekar tímafrekt verkefni,“ viðurkennir Hildur hlæjandi. Hún semur alla tónlistina í myndinni og hefur nú nýlokið upptökum með sinfóníuhljómsveit. „En við erum á lokametrunum.“

Hildur hefur þegar gert tónlist við margar kvikmyndir, m.a. Eiðinn eftir Baltasar Kormák. Þá hefur hún gert tónlist í samstarfi við Jóhann Jóhannsson í nokkrum myndum síðustu ár.

Í kjölfar vinnunnar við tónlistina í Soldado mun annað kvikmyndaverkefni taka við. „Ég get ekki kvartað undir verkefnaskorti,“ segir hún. „Það er mjög mikið að gera, allt á milljón. En það er mjög skemmtilegt í vinnunni.“

En hvenær mun Hildur hafa tíma til að horfa á Handmaid's Tale?

„Það er nú vonandi eitthvað að róast hjá mér svo ég komist í að horfa á þá,“ segir hún hlæjandi og viðurkennir að hún sé mjög spennt að sjá útkomuna. 

Þættina Handmaid's Tale má nú nálgast í Sjónvarpi Símans. Þeir eru tíu talsins en þegar hefur verið ákveðið að gera aðra þáttaröð.  

Heimasíða Hildar Guðnadóttur

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert