Hefðu mátt standa mun betur að upplýsingagjöf

Sýni hafa verið tekin í fjörunni við Faxaskjól síðustu daga.
Sýni hafa verið tekin í fjörunni við Faxaskjól síðustu daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ljóst er að Veitur hefðu mátt standa mun betur að upplýsingagjöf til almennings frá upphafi. Stjórnendur Veitna biðjast afsökunar á þeim óþægindum sem skortur á upplýsingagjöf hefur haft í för með sér.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum vegna skólpmengunar við Faxaskjól.

Í dag fóru Veitur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur yfir verklag varðandi upplýsingagjöf til almennings þegar losa þarf skólp í sjó vegna viðhalds eða bilana. Þar kom fram að upplýsingagjöf bæði til fjölmiðla og almennings verði aukin og fjölmiðlar jafnframt upplýstir um framgang verksins. 

Neyðarlúga dælustöðvarinnar í Faxaskjóli er lokuð en enn lekur með lúgunni. Henni var lokað 5. júlí síðastliðinn. Ekki stendur til að opna hana fyrr en í fyrsta lagi síðar í vikunni þar sem verið er að undirbúa frekari aðgerðir.

„Staðfestar niðurstöður sýnatöku Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar frá 7. júlí sem birtar voru í dag eru vel yfir viðmiðunarmörkum reglugerðar um baðstaði í náttúrunni í kverkinni uppi við dælustöðina austan megin. Austar við Ægisíðu reyndust sýnin undir viðmiðunarmörkum sem og vestan megin við dælustöðina.“ Þetta kemur einnig fram í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert