Lundinn seint á ferð í ár

Ábúð lunda mældist lág í júní. Lægst var hún í …
Ábúð lunda mældist lág í júní. Lægst var hún í Dyrhólaey eða 34%. Erpur Snær Hansen, sviðsstjóri vistfræðirannsókna Náttúrustofu Suðurlands, telur líklegt að lundinn sé seint á ferð eins og síðustu ár en bindur vonir við að niðurstöður seinna lundaralls sýni einhverja hækkun. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Tómt er um að litast í lundabyggðum í Dyrhólaey. Líklegt er að lundinn sé seinna á ferð í ár en áður, en ábúðarhlutfall í júní mældist ekki hátt.

Erpur Snær Hansen, sviðsstjóri vistfræðirannsókna Náttúrustofu Suðurlands, segir að í fyrsta lundaralli í júní hafi þau tekið eftir lækkun á hlutfalli eggja, einnig kallað ábúð, en alls kanna þau tólf lundavörp um land allt, þar á meðal í Vestmannaeyjum og Dyrhólaey. Seinna lundarall er tekið í júlí þegar ungarnir eru komnir á legg og kemur þá betur í ljós hver framleiðslan á þeim er.

Ábúðin hefur lækkað um allt land en segir hann að það megi rekja til kalds vors. Þá var ábúðin í Vestmannaeyjum 41% sem er töluverð lækkun frá því í fyrra. Í Dyrhólaey var hún sérlega slæm í ár eða aðeins 34%. Erpur telur líklegt að lundinn hafi orpið mjög seint í ár eins og áður hefur verið raunin. „Það hefur komið fyrir að þeir byrji mjög seint.“

Ekki er hægt að segja endanlega til um fjöldann fyrr en seinna lundaralli er lokið.

„Við bindum vonir um að ábúðin hafi hækkað svolítið,“ segir Erpur sem staddur var í Elliðaey á dögunum. „Þeir eru að bera talsvert af alls konar dóti og það er alltaf góðs viti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert