Við sýnatökur Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hinn 7. júlí síðastliðinn austan Faxaskjóls kom fram að mengunin fór 200 falt yfir leyfilegt hámark sem kveðið er á um í reglugerð umhverfis- og auðlindaráðuneytisins nr. 798/1999 um fráveitur og skólp.
Þannig mældust 20.000 saurgerlar í 100 millilítra sýni sem þar var tekið en í reglugerðinni segir að á útivistarsvæðum við fjörur séu umhverfismörk fyrir saurmengun yfirborðsvatns vegna holræsaútrása þau að í 90% tilvika megi fjöldi hitaþolinna kólíbaktería eða saurkokka ekki fara yfir 100 á hverja 100 ml.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur meðal annars fram, að sýnatökur á fyrrnefndu svæði muni halda áfram næstu daga.