„Ég skil þessa reiði svo vel og [þetta var] í rauninni andvaraleysi af okkar hálfu að hafa ekki látið vita,“ segir Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri Veitna ohf., um upplýsingagjöf vegna hundraða milljóna lítra af skólpi sem runnu í sjóinn við Faxaskjól í júní og fram í júlí.
Ábyrgðin liggi hjá stjórnendum en hún segist ekki hafa íhugað stöðu sína vegna málsins. „Ég mun samt axla ábyrgð og gera betur í framtíðinni,“ segir Inga Dóra í samtali við mbl.is.
Í framtíðinni verði farið öðruvísi að við upplýsingagjöf. „Til dæmis næst þegar við þurfum að opna neyðarlúguna sem verður að öllum líkindum í næstu viku þá munum við upplýsa það með fréttatilkynningum, á vefnum okkar, á facebook og með skiltum við dælustöðina.“