Franska konan Louise Soreda, sem lögreglan á Suðurnesjum lýsir eftir, fór frá Keflavíkurflugvelli með áætlunarbíl á höfuðborgarsvæðið 5. júlí síðastliðinn. Ekki er vitað að svo stöddu um frekari ferðir hennar á landinu. Á morgun verður tekin ákvörðun um frekari aðgerðir, meðal annars hvaða myndavélar í höfuðborginni verða skoðaðar, að sögn Guðjóns.
„Við erum búin að grandskoða allt myndavélakerfið á flugvellinum og við teljum það nokkuð víst að hún hafi farið með áætlunarbíl á höfuðborgarsvæðið,“ segir Guðjón Garðarsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum.
Fjölmargar ábendingar hafa borist lögreglunni frá almenningi sem tengjast Soreda. Lögreglan er í samstarfi við öll lögregluembætti á landinu. Það samstarf og þær vísbendingar sem hafa borist frá almenningi hefur enn sem komið er ekki borið neinn árangur.
„Við skoðum allar ábendingar sem okkur berast mjög vel,“ segir Guðjón. Hann segir borgara taka vel við sér í málum sem þessum og setja sig í samband við lögreglu ef þeir telja sig geta veitt aðstoð. Hann er ánægður með það.
Spurður um síma Soreda, segir hann að ekki sé vitað hvort hún hafi haft síma meðferðis. Ekkert er heldur vitað um farangur hennar eða hvaða klæðnað hún hafði með sér.
Soreda er með áberandi hvítan lokk í dökku, síðu hári sem er eitt af einkennum hennar og getur hjálpað fólki að bera kennsl á hana.
Þegar síðast var vitað var hún klædd bláum gallabuxum, brúnum fjallgönguskóm og hvítri peysu. Þá hafði hún meðferðis stóran rauðan bakpoka ásamt upprúllaðri ljósgrárri dýnu. Þeir sem hafa upplýsingar um hvar Louise er niðurkomin, eða hafa séð hana, geta haft samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 444-2200.