Lögreglan á Suðurnesjum óskar eftir aðstoð almennings við að hafa uppi á frönskum ferðamanni, Louise Soreda, sem er fædd árið 1995. Ekkert hefur til hennar spurst frá því hún kom til landsins 5. júlí sl.
Er síðast var vitað var hún klædd bláum gallabuxum, brúnum fjallgönguskóm og hvítri peysu. Þá hafði hún meðferðis stóran rauðan bakpoka ásamt upprúllaðri ljósgrárri dýnu.
Þeir sem hafa upplýsingar um hvar Louise er niðurkomin, eða hafa séð hana, vinsamlega hafið samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 444-2200.
Uppfært kl. 11:29
Soreda sást síðast í flugstöð Leifs Eiríkssonar við komuna til landsins en hún er hér ein á ferð. Ekki er vitað hversu lengi hún hugðist vera hér á landi. Lögreglunni á Suðurnesjum hafa þó borist nokkrar ábendingar frá almenningi sem telur sig hafa séð til Louise, m.a. á Reyðarfirði og í Vestmannaeyjum.
Þær ábendingar eru nokkurra daga gamlar að sögn lögreglu og því erfitt að fylgja þeim eftir. Engar áreiðanlegar ábendingar um ferðir Soreda eða hvar hún er niður komin hafa borist að svo stöddu.