Magnús Heimir Jónasson
„Við höfum miklar áhyggjur af þessum málum og hvaða áhrif þetta hefur raunverulega á strandlengjuna hér í Kópavogi,“ segir Theódóra S. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs, um saurgerlamengunina sem myndaðist vegna bilunar í skolphreinsistöðinni við Faxaskjól.
Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær mældist saurmengun í sjónum austan við stöðina 200 falt yfir mörkum. „Það er búið að gefa út yfirlýsingar um að þetta fari ekki inn í Nauthólsvík en það er ekki búið að gefa út að þetta fari ekki inn í Kópavog,“ segir Theódóra en hún bætir við að ekki sé mikið vitað hvort starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins í Kópavogi og Reykjavík séu að ræða saman.
„Þannig vakna mjög stórar spurningar hjá okkur, til dæmis hvort starfsmenn heilbrigðiseftirlits bæjarfélaganna séu að tala saman? Það er eitthvað sem við ætlum að kalla eftir hjá okkar heilbrigðiseftirliti,“ segir Theódóra í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.