Fjárfestirinn Bala Kamallakharan er kominn með íslenskan ríkisborgararétt, en í síðasta mánuði vakti það talsverða athygli þegar honum var neitað um ríkisborgararétt eftir að hafa búið hér á landi í 11 ár vegna hraðasektar. Bala greinir frá tíðindunum á Facebook-síðu sinni og þakkar öllum sem að málinu komu fyrir stuðning og hjálp.
Málið má rekja til þess að í desember sendi Bala umsókn um ríkisborgararétt inn. Í febrúar í ár fékk hann svo hraðasekt, en upphæð sektarinnar var lægri en það viðmið sem Útlendingastofnun gefur upp að lengi biðtíma eftir að fá ríkisborgararétt. Þegar nánar var að gáð hafði önnur sekt verið skráð á Bala fyrir mistök sem hafði áhrif á umsögn lögreglu um ríkisborgarréttinn.
Eftir að málið kom upp í síðasta mánuði lét Útlendingastofnun Bala vita að ákvörðun um höfnun á umsókn hans yrði endurskoðuð, en þá þurfti lögreglan að gefa út nýja tillögu svo málið yrði leiðrétt. Þurfi Bala að skrifa lögreglunni bréf þess efnis.
Bala hefur verið búsettur á Íslandi í 11 ár. Hann er kvæntur íslenskri konu og á tvö börn. Hann er stofnandi Startup Iceland-ráðstefnunnar sem hefur verið haldin árlega undanfarin 6 ár og hefur fengið fjölmarga erlenda fjárfesta í nýsköpun til landsins auk þess að fjárfesta sjálfur í nýsköpun.