Gætu byrjað að rífa flakið í haust

Seabed Constructor þurfti að láta af framkvæmdum og sækja um …
Seabed Constructor þurfti að láta af framkvæmdum og sækja um leyfi. mbl.is/Árni Sæberg

Norska rann­sókn­ar­skipið Sea­bed Constructor gæti hafið neðansjávarframkvæmdir við þýska flak­ið Mind­en snemma í haust ef starfsleyfisumsóknin verður samþykkt hjá Umhverfisstofnun. Stofnuninni hafa ekki borist fleiri umsóknir um að fara niður að flakinu. 

Seabed Constructor komst í fréttirnar í apríl þegar Landhelgisgæslan stefndi skipinu til hafnar vegna gruns um ólöglegar rannsóknir. Skipið fór aftur út á sjó og voru skip­verj­ar byrjaðir að rífa flak þýska kaup­skip­sins Mind­en, sem sökk suður af Íslandi í lok sept­em­ber 1939, þegar Landhelgisgæsla hafði aftur afskipti af þeim. Eftir óvissu um lögmæti framkvæmdanna kom í ljós að áhöfnin þyrfti starfsleyfi frá Umhverfisstofnun. 

Þeir eru að sækja um að fara með kafbát niður að skipinu og skera í skipsskrokkinn. Tilgangurinn er að ná í verðmæti sem þar er að finna,“ segir Agnar Bragi Bragason, lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun. 

Fyrirtækið sem sækir um leyfið heitir Advanced Marine Services Ltd. og er skráð í Bretlandi. Það hefur ekki upplýst Umhverfisstofnun um hvaða verðmæti megi finna í flakinu en í vor töluðu skipverjar óljóst um verðmæta málma við yfirvöld. 

Ekki hafa borist fleiri umsóknir um að rífa flakið að sögn Agnars en í júlí rennur út umsagnarfrestur fyrir starfsleyfið. 

„Að því tilskildu að ekkert standi því til fyrirstöðu þá getur leyfið farið í auglýsingu í átta vikur þannig að það gæti verið tækt í lok september eða október ef svo ber við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert