Lögreglan á Suðurnesjum telur sig búna að staðsetja frönsku stúlkuna Louise Soreda sem lýst var eftir í gær. Nú er beðið eftir staðfestingu frá ákveðnu ferðaþjónustufyrirtæki um hvort hún sé á þeim stað sem talið er.
Þetta segir Jón Halldór Sigurðsson, lögreglumaður hjá lögreglunni Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. Hann segir hana ekki staðsetta á höfuðborgarsvæðinu en vill að svo stöddu ekki gefa frekari upplýsingar um líklega staðsetningu hennar.
Lögreglan komst á slóð Louise í gegnum upplýsingar frá greiðslukortafyrirtæki, en hún mun hafa notað kort sitt til að greiða fyrir þjónustu ferðaþjónustufyrirtækis hér á landi.
Þá hefur Louise sést bregða fyrir á öryggismyndavélum á hóteli í Reykjavík, þar sem hún virðist vera í fylgd annars ferðalangs sem er svipað útbúinn og hún. Lögregla telur sig vita að hún hafi gist tvær nætur í Reykjavík.
Jón telur líklegast að Louise sé einfaldlega á ferðalagi um landið og hafi ekki fylgst með íslenskum fréttum. Sú staðreynd að hún hafi aðeins verið með farmiða aðra leið til Íslands, geti hins vegar bent til að hún hafi ekki vitað hvað hún ætlaði að gera í framhaldinu.
Jón segir að um leið og staðfesting fáist frá ferðaþjónustufyrirtækinu verði fjölskylda Louise látin vita og leit að henni hætt.
Louise kom til landsins 5. júlí og tók áætlunarbíl til Reykjavíkur í kjölfarið. Lögreglu barst svo fyrirspurn frá Interpool 7. júlí, en þá var fjölskylda hennar farin að óttast um hana. Hún hafði ekki látið vita af ferðum sínum og virtist ekki vera með kveikt á símanum sínum. Lögregla lýsti hins vegar ekki eftir henni fyrr en 12. júlí.