Heilbrigðiseftirlitið mælir daglega magn saurgerla í sjónum á svæðinu við Faxaskjól og víðar í kjölfar bilunar í dælustöðinni. Neyðarlúga dælustöðvarinnar er enn lokuð og ekki stendur til að opna hana fyrr en eftir helgi.
Mælingarnar miða við að saurgerlar fari ekki yfir það magn sem segir í reglugerð um baðstaði í náttúrunni. Miðað er við að á baðstöðum í flokki 3 fari fjöldi saurkólígerla ekki yfir 500/100 ml og enterokokkar ekki yfir 185/100ml.
Niðurstöður sem heilbrigðiseftirlitið hefur birt sýnir tölur tvo til þrjá daga aftur í tímann og mældust saurgerlar á miðvikudaginn á öllum svæðunum undir viðmiðunarmörkum.
Vegna bilunar í neyðarlúgu í fráveitukerfinu fór skólp út í sjó við Faxaskjól í Reykjavík. Neyðarlúga dælustöðvarinnar liggur enn niðri og mun gera það fram yfir helgi þar til frekari ráðstafanir verða gerðar varðandi viðgerðir. Enn lekur með lúgunni.
Fyrr í vikunni unnu Veitur að því hreinsunarstörfum í fjörunni við Faxaskjól en mikið rusl sem hent hefur verið í klósett hefur skolast upp í fjörur í nágrenninu. Þar á meðal voru blautþurrkur, eyrnapinnar, bindi og fleira sem hreinsa þurfti úr fjörunni sem aðgengilegur er almenningi. Í framhaldinu verður farið í meiri hreinsun. Þetta kemur fram á vef Veitna.