Hann dansaði á sviðinu með bandarísku söngkonunni Katy Perry þegar hún kom fram á Brits-tónlistarverðlaunahátíðinni í London þetta árið. Og fleiri spennandi verkefni munu efalítið koma í framhaldinu. Rúnar Bjarnason er í námi í Tiffany Theatre College í Bretlandi, en fólk leitar til skólans eftir dönsurum og söngvurum í ólíkustu verkefni.
„Þetta á upphaf sitt í því að ég var einn af þeim sex strákum sem valdir voru til að æfa dans í hálft ár fyrir aðalhlutverkið í Billy Elliot, en danskennararnir sem þjálfuðu okkur voru frá Bretlandi, Elizabeth Greasley og Chantelle Carey. Þær hvöttu mig til að sækja um í skólum í Bretlandi og ég gerði það. Ég sótti um í nokkrum skólum og fékk inngöngu í skólann þar sem Elizabeth er kennari,“ segir Rúnar sem þurfti að fara í prufur og sýna sig og sanna, syngja, dansa og leika fyrir kennarana.
„Ég söng á íslensku lag úr Billy Elliot-sýningunni og þurfti að semja sjálfur dansatriðið mitt. Þetta var mjög ögrandi verkefni en ég fékk að vita klukkutíma eftir inntökuprófið að ég hefði komist inn, það var æðislegt.“
Rúnar hefur verið dansandi frá blautu barnsbeini, hann var aðeins þriggja ára þegar hann byrjaði að læra samkvæmisdans og keppti bæði hér heima og í útlöndum allt frá sex ára aldri. Nú er Rúnar 17 ára en hann var aðeins sextán ára þegar hann hélt út til Bretlands í fyrrahaust, nýbúinn að klára grunnskóla á Íslandi.
„Við erum ekki nema þrjú sem erum sextán ára í þessum skóla, hinir nemendurnir eru eldri, allir strákarnir eru yfir tvítugt, en það eru miklu fleiri stelpur en strákar í skólanum. Við erum aðeins tíu strákar af hundrað nemendum og fyrir vikið fá strákar frekar styrk til náms í skólanum en stelpur,“ segir Rúnar sem fékk fullan námsstyrk.
Hann neitar því ekki að það hafi verið svolítið kvíðvænlegt að flytja einn til útlanda frá fjölskyldunni sinni. „Ég bjó hjá breskri fjölskyldu sem er frábær, en það var pínu skrýtið augnablik þegar ég opnaði í fyrsta sinn herbergið mitt þar sem ég átti að halda til í heilan vetur, þá varð þetta allt raunverulegt. Breska fjölskyldan mín vildi allt fyrir mig gera og bauð mér með sér hvert sem þau fóru, en ég var svo upptekinn í skólanum að ég komst ekki nærri alltaf með þeim,“ segir Rúnar sem var oft í skólanum í tíu til tólf tíma á dag.
„Auðvitað saknaði ég fjölskyldunnar minnar hér heima, en ég gat talað við foreldra mína í síma, svo þetta var ekkert mál.“
Foreldrar Rúnars, Perla Rúnarsdóttir og Bjarni Björnsson, segja það vissulega hafa verið erfitt að sleppa hendinni af 16 ára syninum þegar hann fór út, en gott samband var milli fjölskyldnanna, þeirrar bresku sem Rúnar bjó hjá úti og hans fólks hér heima. „Við vorum í stafrænu sambandi og heimsóttum hann líka. En erfiðast var að kveðja hann á lestarstöðinni í síðustu heimsókn okkar til hans, sem var skömmu eftir hryðjuverkaárásina. Sérstaklega af því að hryðjuverkum hefur fjölgað í Bretlandi og Rúnar hefur orðið var við meiri hryðjuverkaótta meðal fólks og aukna öryggisgæslu.“
Skólinn er í þeim hluta Essex sem heitir West Cliff, og Rúnar segir gott að búa þar.
„Þetta er nánast eins og Kópavogur, mjög notalegt og öruggt umhverfi, allt frekar einfalt og eiginlega ekki hægt að villast. Og auðvelt fyrir mig að fara þaðan til London þegar ég þurfti að fara þangað á æfingar um helgar.“
Námið við skólann er tvö ár og hægt er að bæta við sig þriðja árinu ef fólk vill. Rúnar er ákveðinn í að fara aftur út í haust og ljúka seinna árinu, en hann ætlar að sjá til með þriðja árið.
„Fyrir mig var þetta eins og að stökkva út í djúpu laugina, ég vissi ekkert hvernig þetta yrði. Ég vissi samt alveg hverju ég mætti búast við hjá Elizabeth, danskennaranum sem kenndi mér í Borgarleikhúsinu, hún er mjög ströng og hörð, lætur okkur stundum gera hundrað armbeygjur. Hún er rosaleg,“ segir Rúnar og bætir við að bæði Elizabeth og Chantelle hafi gert mikið fyrir íslenska krakka í dansinum, stór hópur íslenskra krakka hefur lært hjá þeim þegar þær voru á Íslandi, en það sé engin sambærileg kennsla hér á landi.
„Námið úti stóðst allar mínar væntingar og þetta var frábær vetur,“ segir Rúnar sem var auk þess í fjarnámi í ensku frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, en segir það hafa verið nokkuð strembið að sinna því, þar sem hann kom oftast dauðþreyttur seint heim úr skólanum.
Rúnar lærir við skólann meðal annars „commercial“ dans, eða nútímadans, til dæmis street-dans, jazz, hipphopp og fleiri dansstíla sem mikið eru í tónlistarmyndböndum, auglýsingabransanum, sjónvarpi, kvikmyndum og á fleiri sviðum.
„Fólk leitar til skólans okkar eftir dönsurum í allskonar verkefni og ég er búinn að taka þátt í einu slíku, ég var að dansa á sviðinu með bandarísku söngkonunni Katy Perry þegar hún kom fram á Brits-tónlistarverðlaunahátíðinni í London þetta árið. Við fengum þetta verkefni í gegnum söngkennarann minn, Liam Lunniss, sem er mjög vinsæll „choreographer“ og er þekktur og virtur í söngheiminum,“ segir Rúnar og bætir við að þetta hafi verið frábær upplifun. Hann er mjög spenntur fyrir þeim verkefnum sem hann á eftir að taka þátt í í framtíðinni.
„Mig langar að komast á skrá hjá stórri og öflugri umboðsskrifstofu, ég er spenntur fyrir einni sem heitir Skin London.“
Eldri bróðir Rúnars, Björn Dagur Bjarnason, fór í dansprufur í dansskólum í London á þessu ári og er nú kominn inn í einn slíkan, Wilkes Academy of Performing Arts, og hefur þar nám í haust.