Sýnataka mun fara fram á 20 stöðum meðfram strandlengjunni í Reykjavík í dag. Á flestum stöðum er það samkvæmt hefðbundnu eftirlitsferli heilbrigðiseftirlitsins en að auki hefur nokkrum stöðum verið bætt við tímabundið vegna skólpmengunar frá skólpstöðinni í Faxaskjóli sem er biluð.
Neyðarlúga skólpstöðvarinnar er enn lokuð og ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær viðgerðir munu hefjast. Þá liggja fyrir niðurstöður úr mælingum saurkólígerlamengunar úr sýnum sem tekin voru í Nauthólsvík í gær, sunnudaginn 16. júlí, og er gildið 90/100. Það er innan viðmiðunarmarka en ögn hærra en daginn áður þegar gildið var 79/100.
Mælingar í Nauthólsvík fóru úr 1100/100 13. júlí í 99/100 saurkólígerla í sýni 14. júlí sem er mun hærra en venjulegt þykir í Nauthólsvík. „Þessar tölur í Nauthólsvíkinni komu okkur ofboðslega mikið á óvart, við höfum aldrei séð svona tölur,“ segir Rósa Magnúsdóttir, umhverfisstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.
„Þetta er bara hefðbundinn sýnatökustaður þar sem við höfum verið að taka sýni í gegnum tíðina og alltaf verið í mjög góðu lagi,“ bætir Rósa við. Hún segir gildin yfirleitt hafa verið á bilinu 0-5/100 en allt í einu hafi það rokið upp í 1.100/100. Gildið hefur þó lækkað talsvert síðan það mældist hæst er enn þá talsvert hærra en venjulega. Verið er að kanna uppsprettu mengunarinnar í Nauthólsvík.
Ástæða þótti til að taka sýni í lóni Ylstrandarinnar í Nauthólsvík vegna þessa en sýni í miðju lóninu sýndu 2/100 saurkólígerla í 100 millilítrum miðað við niðurstöður sem lágu fyrir í gær og er það vel undir mörkum fyrir baðstaði.
Bráðabirgðaniðurstaðna, úr mælingunum sem gerðar verða í dag, má vænta á morgun en lengri tíma tekur að fá staðfestar tölur. Heilbrigðiseftirlitið mun fylgjast daglega með Nauthólsvík auk þess að fylgjast með strandlengjunni við Faxaskjól, Ægisíðu og Skeljanes. Niðurstöður eru birtar jafnóðum á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Í síðustu viku var ráðist í hreinsun fjörunnar við dælustöðina við Faxaskjól en þegar neyðarloka var tekin upp til viðgerða í júní var skólpi sleppt í sjó og fylgdi því nokkurt magn af rusli sem skolaði upp í fjöru. „Við erum búin að fara nokkrum sinnum yfir þetta svæði og tína það sem er sjáanlegt eins og hægt er,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við mbl.is.
Enn eru bilanir í skólpstöðinni sem þarf að gera við og sem stendur verður neyðarloka skólpstöðvarinnar áfram lokuð. „Það er engin ákvörðun komin enn, hvenær við ráðumst í þetta. Hún er bara enn þá lokuð,“ segir Ólöf.