Búið er að gera við neyðarloku skólpdælustöðvarinnar við Faxaskjól, sem biluð hafði verið frá 12. júní. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Veitum sem segja lokuna hafa verið setta niður síðdegis í gær og að virkni hennar hafi þá virst með ágætum.
Hún hafi síðan verið prófuð og stillt enn betur á flóði og fjöru og hafi prófunum á henni lokið seint í gærkvöldi. „Þetta þýðir að búið er að stöðva lekann meðfram neyðarlokunni, sem glímt hefur verið við undanfarið og að reksturinn á dælustöðinni er kominn í eðlilegt horf,“ segir í yfirlýsingunni.
Í gær hafði óhreinsað skólp runnið út í sjó í Faxaskjóli 18 daga í júní og júlí, meðan á viðgerð stóð, eða tæplega milljón rúmmetrar.