„Leitað með ráðum og dáð“

Björgunarsveitir af öllu Suðurlandi, sem og af höfuðborgarsvæðinu leita nú …
Björgunarsveitir af öllu Suðurlandi, sem og af höfuðborgarsvæðinu leita nú af manninum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á annað hundrað björgunarsveitarmenn leita nú að manni sem féll í Gullfoss um klukkan fimm í dag. Um er að ræða kafara, sérhæft fólk í straumvatnsbjörgun og drónahópa og göngufólk er einnig byrjað að ganga meðfram árbakkanum. Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Þá eru tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar á svæðinu ásamt sérhæfðu fjallabjörgunarfólki. Lögregla, sjúkralið og aðrir viðbragðsaðilar eru einnig á staðnum.

Að sögn Davíðs sást til mannsins á milli fossanna í upphafi aðgerða en ekkert hefur sést til hans síðan.

„Það stendur yfir víðtæk leit. Staðan er sú að það er verið að leita með öllum mögulegum ráðum og dáð. Eins og staðan er núna verður leit haldið áfram þar til eitthvað breytist.“

Spurður um leitarsvæðið segist hann ekki hafa upplýsingar um stærð þess. „Það eru enn bjargir á leiðinni. Það voru boðaðar bjargir af stóru svæði á Suðurlandi,“ segir Davíð og mun því enn bætast í hóp leitarfólksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka