Lögreglan hefur vísbendingar um manninn

Frá leitinni á Hvítá í kvöld.
Frá leitinni á Hvítá í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er enn búið að staðfesta hver maðurinn sé sem féll í Gullfoss fyrr í dag en lögreglan segist hafa ákveðnar vísbendingar um það og skoði þær nú. Er sérstaklega horft til bíls á bílastæðinu við Gullfoss sem talið er að maðurinn hafi komið í. Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Sveinn segir að lögreglan hafi í kvöld tekið skýrslur af vitnum og öðrum sem geti þekkt til bílsins og að unnið sé í „botngír“. Á annað hundrað björgunarsveitarmenn hafa tekið þátt í leitinni í kvöld en á miðnætti verður henni frestað þangað til um níu á morgun að sögn Sveins. Áin verður þó vöktuð með fólki á nokkrum stöðum í nótt.

Búið er að leita ána mjög vel, að sögn Sveins, niður undir Brúarhlöð. Spurður um aðstæður segir hann að jökuláin sé kolmórauð og því þurfi að leita hana nokkrum sinnum. Þá þurfi björgunarsveitafólk að berjast við klettaveggi og nokkuð erfiðar aðstæður á ánni sem geri leitina erfiða og ekki sé vitað hvernig áin sé, t.d. með tilliti til mögulegra hella og annars sem getur haft áhrif á hvar leitað sé.

Björgunarsveitarmenn og þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið við leit í kvöld.
Björgunarsveitarmenn og þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið við leit í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert