Ólíklegt er að maðurinn sem féll í Gullfoss í gær sé erlendur ferðamaður, samkvæmt vísbendingum sem lögregla er að skoða. Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Greint var frá því að maður hefði fallið í Gullfoss rétt fyrir klukkan fimm í gær. Hann virðist hafa verið einn á ferð en sérstaklega er horft til bíls á bílastæðinu við Gullfoss sem talið er að maðurinn hafi komið í.
Sveinn Rúnar segir að leitin í dag verði með svipuðu móti og í gær, leitað verði upp og niður með ánni og leitarsvæðið stækkar. Hann segir að áin sé þannig að hægt sé að veltast um á sama stað í langan tíma. Áin var vöktuð í nótt með fólki á nokkrum stöðum en ekkert kom út úr því.
Spurður hvort hægt sé að segja að svæðið sé hættulegt í ljós atburðarins segir Sveinn Rúnar að mikil bragarbót hafi orðið við Gullfoss á síðustu árum. Girðingum og keðjum hafi verið bætt við og fátt sé um slys.