Þrír björgunarsveitarmenn lentu í háska við Bræðratungubrú í Hvítá í dag eftir að bátur þeirra varð vélarvana. Hending réð því að aðrir nærstaddir björgunarsveitarmenn athuguðu með hópinn og sáu þá þrjá björgunarsveitarmenn fasta við netið undir Bræðratungubrú sem búið var að strengja vegna leitarinnar að hinum 22 ára Nika Begades sem fór í fossinn á miðvikudag.
Bátinn rak undir brúna og í netið og komust björgunarsveitarmennirnir þrír ekki undan brúnni vegna straumsins í ánni. Þeir þurftu að rýma björgunarbátinn þar sem honum var að hvolfa og voru þeir því ofan í ánni þegar þeim var bjargað.
Björgunarsveitarmennirnir voru frá björgunarsveitinni Björgum frá Eyrarbakka og segir Steinþóra Jóna Hafdísardóttir, ein þeirra sem í háskanum lentu, að eyri í ánni hafi byrgt sýn björgunarsveitarmanna í landi að brúnni þar sem atvikið varð.
Hún segir að aðrir þrír björgunarsveitarmenn úr sömu sveit hafi talið að þremenningarnir væru komnir í land en ákveðið að kanna það til vonar og vara, sem leiddi til þess að þau fundust.
„Það voru þrír í landi. Tveir þeirra áttu að vera á öðrum bát talsvert frá okkur og sá þriðji átti að vera farinn í aðgerðastjórn. Það var algjör tilviljun að þau voru í landi þegar þetta gerðist,“ segir Steinþóra.
Um 15 mínútur liðu frá því að björgunarsveitarmennirnir sigldu fram á hópinn og tilkynntu slysið til svæðisstjórnar þar til búið var að koma öllum í land.