Stígamót hafa verið hreinsuð af ásökunum og Guðrún Jónsdóttir, talskona samtakanna, hefur tekið við því hlutverki að nýju. Guðrún steig til hliðar á meðan úttekt var gerð á vinnuumhverfi Stígamóta, eftir yfirlýsingu níu kvenna um neikvæða reynslu sína af starfi samtakanna.
Í fréttatillkynningu sem Stígamót sendu frá sér í dag segir að stjórn og starfshópur Stígamóta hafi tekið umræðu um neikvæða starfsupplifun af alvöru. Í kjölfar hennar hafi verið leitað til vinnustaðasálfræðinga, vinnustaðalögfræðinga og Vinnueftirlitsins og ákveðið að ráðleggingum þeirra um fagleg viðbrögð yrði fylgt í einu og öllu.
Niðurstöður Forvarna, sem sáu um úttektina, liggi nú fyrir. „Þær gefa til kynna að samstaða, sveigjanleiki og góður starfsandi einkenni vinnuumhverfið hjá Stígamótum,“ segir í tilkynningunni. Starfsálag, stjórnun, ofbeldi, samskipti og starfsandi hafi verið kannað, sem og einkalíf, sveigjanleiki og streita.
„Í sálfélagslega matinu kemur fram að starfsmenn búa við talsvert starfsálag en virðast ráða vel við það og hafa góðan stuðning. Stjórnun er skýr og starfsmenn öruggir um sig. Engar vísbendingar komu fram um ofbeldi á vinnustað eins og einelti eða kynferðislega áreitni. Samskipti virðast vera með góðu móti og stuðningur í starfi er góður. Samræming einkalífs og starfs er hugleikin starfsfólki og það þarf að hafa fyrir jafnvægi á milli starfs og einkalífs sem þeim þó virðist takast ágætlega að tileinka sér. Starfsmenn njóta handleiðslu í hópi og hefur þetta vafalítið góð áhrif. Góður sveigjanleiki er í starfi fyrir starfsmenn. Streita er til staðar og stundum líka álag heima fyrir en þetta virðist ekki hafa farið úr böndum hjá neinum starfsmanni og ekki verður vart við sjúkleg streitueinkenni hjá neinum starfsmanni,“ segir í fréttatilkynningunni.
Í ljósi þessara niðurstaðna þykir stjórn Stígamóta yfir allan vafa hafið að traust, trúnaður og starfsánægja ríki meðal starfsfólks Stígamóta. Ekkert hafi gefið til kynna að einn eða fleiri starfsmenn sýndu samstarfsfólki sínu óviðeigandi hegðun, ráðríki eða yfirgang. Í framhaldinu hafi stjórnin, í samráði við starfshópinn, óskað eftir því að Guðrún Jónsdóttir tæki við hlutverki talskonu á ný og hún hafi orðið við þeirri beiðni.