Hælisleitendur voru á útkikki

Tugir björgunarsveitarmanna verða við leit að manninum í dag.
Tugir björgunarsveitarmanna verða við leit að manninum í dag. Ljósmynd/Sverrir Styrkár Gestsson

Um fimmtíu manna hópur sérhæfðra björgunarsveitarmanna mun halda áfram leit að Georgíumanninum Nika Bega­des í dag. Begades féll í Gullfoss síðdegi á miðvikudag. Engar líkur eru taldar á því að hann hafi lifað fallið af. Fjörutíu manna hópur frá Georgíu sótti um hæli á Íslandi í júní. Í þeim mánuði ákvað Útlendingastofnun að setja landið á lista yfir örugg ríki.

Leitað verður á slöngubátum á Hvítánni og með drónum úr lofti. Að auki verða að störfum sérþjálfaðir straumvatnsbjörgunarmenn. „Þetta verður fámennt en góðmennt við leitina í dag,“ segir Viðar Arason hjá svæðisstjórn björgunarsveitanna á Suðurlandi.

Leitað verður á svæðinu frá slysstaðnum, þ.e. við Gullfoss og að Iðubrú við Laugarás. Viðar segir að björgunarsveitarmennirnir muni fara á staði sem eru mjög krefjandi til leitar. Þá hefur netverið strengt í ána neðan við Hvítárbrú.

Björgunarsveitarmennirnir koma frá sveitum af Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Bækistöð leitarhópanna verður á Flúðum.

Hælisleitendur buðu fram að aðstoð

Nika Begadas var 22 ára hælisleitandi frá Georgíu.
Nika Begadas var 22 ára hælisleitandi frá Georgíu.

Viðar segir að í gær hafi rúmlega þrjátíu manna hópur hælisleitenda mætt á leitarsvæðið og boðið fram aðstoð sína. Hann segir skiljanlegt að fólk vilji leggja sitt af mörkum en útskýrt hafi verið fyrir hópnum að ekki væri hægt að tryggja öryggi hans. „Þeir vildu að sjálfsögðu gera sitt besta og að sjálfsögðu erum við þakklát fyrir það og tókum fagnandi á móti þeim. En við útskýrðum fyrir þeim að við gætum einfaldlega ekki tryggt öryggi þeirra og notað krafta þeirra við leitina. Við buðum þeim kaffi og útskýrðum fyrir þeim hvað væri búið að gerast. Þeir voru mjög þakklátir fyrir það.“

Viðar segir að hópurinn hafi um stund dvalið á gömlu Hvítárbrúnni og verið á „útkikki“ eins og hann orðar það.

40 manna hópur kom í júní

Nika Begades var 22 ára. Hann hafði stöðu hælisleitanda hér á landi og var búsettur í Reykjanesbæ. Á vef Útlendingastofnunar segir að 40 manna hópur hælisleitenda frá Georgíu hafi komið til Íslands í júní. Mánuðina á undan voru þeir mun færri.

Þann 19. júní var Georgía sett á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki. Á vef stofnunarinnar segir að mannréttindi séu almennt virt í Georgíu og kveður stjórnarskrá Georgíu á um jafnræði borgaranna ásamt því að erlend mannréttindasamtök hafa starfað í landinu án tálmana. „Útlendingastofnun hefur kannað aðstæður í Georgíu í þaula í tengslum við hælisumsóknir fólks frá landinu og fyrir liggur að allar forsendur eru fyrir hendi til að skilgreina Georgíu sem öruggt ríki.“

Í ákvörðun stofnunarinnar um að setja Georgíu á listann yfir örugg ríki er áréttað að þrátt fyrir að tiltekið ríki sé á þeim lista fari ávallt fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum í hverju máli fyrir sig. „Hvert mál er skoðað sérstaklega á eigin forsendum með tilliti til fyrirliggjandi gagna og landaupplýsinga á hverjum tíma og það eitt að umsækjandi um vernd sé frá ríki á listanum getur aldrei leitt til þess að Útlendingastofnun taki mál hans ekki til skoðunar eða synji umsókn hans án undangenginnar rannsóknar.“

Kemur fram að listinn sé aðeins til hliðsjónar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert