Safna fé til að klára útialtarið

Hrefna og séra Gunnþór gáfu sér tíma til að ræða …
Hrefna og séra Gunnþór gáfu sér tíma til að ræða við blaðamann og ljósmyndara við Esjuberg. mbl.is/Golli

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur hafið áheitafjársöfnun á vefsíðunni Karolinafund.com vegna gerðar útialtaris með keltnesku hringsniði, sem félagið er að reisa við Esjuberg á Kjalarnesi. Framkvæmdirnar eru komnar nokkuð á veg, á síðasta ári var stæði útbúið fyrir altarið. Nú er risinn einn fjögurra ystu skjólveggja þess, en annar áfangi framkvæmdanna felur í sér að reisa veggina, ytri hring altarisins af tveimur og leggja göngustíga á altarissvæðið.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, tók fyrstu skóflustungu að altarinu 8. maí á síðasta ári.

Um 4.600 evrur hafa þegar safnast, eða rúm hálf milljón. Er það tæplega þriðjungur þeirrar upphæðar sem þarf til að ljúka öðrum áfanga framkvæmda við altarið. Til að áheiti innheimtist þarf öll upphæðin að nást fyrir 5. ágúst. Heildarkostnaður við verkið er svo áætlaður um tíu milljónir króna.

Kjalarnessprófastsdæmi, hverfisráð Kjalarness og sóknarnefnd Brautarholtssóknar hafa styrkt verkefnið duglega.

Reyndur hleðslumaður vinnur verkið, en það er einnig að hluta unnið í sjálfboðavinnu meðlima Sögufélagsins og hafa þeir m.a. tínt grjót til að hlaða altarið, en ætlunin er að allt grjótið komi af Kjalarnesi.

Sögufélagið driffjöðrin

Altarið er minnisvarði um kirkju Örlygs Hrappssonar, sem talin er hafa staðið á Esjubergi fyrir kristnitöku, um árið 900. Er hún fyrsta kirkja á Íslandi sem getið er í ritheimildum. Ýmsar heimildir renna stoðum undir sögur af tilvist kirkjunnar en engar menjar hafa fundist sem staðfesta hana. Líklegt er talið að skriðuföll úr Esju á 17. eða 19. öld hafi eytt henni. Örnefni á staðnum vísa til helgihalds þar.

„Þetta hófst í fyrra, fyrsti áfangi, að byrja á hringnum. Þá var einnig settur hér veglegur altarissteinn sem vegur ellefu tonn sem við fengum að gjöf frá fyrri ábúendum Esjubergs,“ segir Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, formaður Sögufélagsins Steina, en nú stendur yfir vinna við annan áfanga. Hugmyndin um minnisvarða við Esjuberg vaknaði um aldamót, en síðustu ár hefur Sögufélagið tekið hana á framkvæmdastig.

„Það er Sögufélagið sem er grunnurinn að þessu framtaki hérna. Ég er í samstarfi við Sögufélagið í starfi mínu sem sérþjónustuprestur á Biskupsstofu á sviði helgihalds og þjóðmenningar og bý að því að hafa sérþekkingu í keltneskum fræðum,“ segir séra Gunnþór Þ. Ingason.

Að hans sögn eru keltneskar rætur við Esjuberg sterkar, en samkvæmt Landnámu kom Örlygur frá Suðureyjum við Skotland, en settist síðar að á Kjalarnesi. Fjölmörg örnefni á svæðinu eiga einnig keltneskar rætur.

Nánar má lesa um útlit og uppbyggingu altarisins hér til hliðar, en það verður í keltneskum stíl líkt og áður sagði. Sem dæmi má nefna, að í miðju mannvirkinu mun standa stór keltneskur hringkross.

Upplýsingaskilti um altarið er í forgrunni. 11 tonna altarisstein, í …
Upplýsingaskilti um altarið er í forgrunni. 11 tonna altarisstein, í miðju altarisins, má sjá í bakgrunni aftan við hlaðinn vegg. mbl.is/Golli

Minnisvarði og vígður helgistaður

Altarið mun ekki aðeins þjóna tilgangi sem minnisvarði, heldur verður það vígt sem kristinn helgidómur, líkt og um kirkju væri að ræða. Þar gefst fólki t.d. kostur á að láta gefa sig saman eða láta skíra börn.

„Þetta er auðvitað kristinn helgistaður og minnisvarði um keltneska arfleið okkar. Þetta getur samt líka tengst útiveru og ferðamennsku því hér er einmitt gönguleið upp á Kerhólakamb. Fólk getur þá komið hingað og talað við drottin áður en það fer upp og hvílt sig þegar það kemur niður. Þetta getur orðið dýrmætur hvíldar- og íhugunarstaður,“ segir Hrefna Sigríður.

Ef allt gengur að óskum er áætlað er að framkvæmdum við annan áfanga ljúki fyrir lok þessa árs og að altarið verði tilbúið í lok árs árið 2018.

Altarið verður í keltneskum stíl

Útialtarið á Esjubergi verður í keltneskum stíl og það teiknaði Sigurborg Haraldsdóttir landslagsarkitekt eftir frumteikningu sr. Gunnþórs Þ. Ingasonar. Fjórir hlaðnir veggir, um 1,5 metra háir, marka ytri mörk altarisins, og veggirnir liggja í hring.

Tveir gangvegir, 18 metrar að lengd, liggja þvert í gegnum altarið og mynda kross. Til viðbótar við ystu veggina liggja tveir hringir nær altarinu sem lækka eftir því sem nær dregur altarissteininum, sem verður í miðjunni. Á grjótveggjunum eru hlaðnir bekkir sem snúa inn að altarissteini, en einnig eru við altarið skírnarfontur og predikunarstóll.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert