Svo virðist sem skólpmengunin við Faxaskjól hafi ekki áhrif á svæði innan Kópavogs. Mælingar voru gerðar í síðustu viku og verða þær endurteknar á fyrrihluta ágústmánaðar. Tore Skjenstad, sérfræðingur hjá heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, segir ekki ástæðu til þess að vara við mengun á svæðinu.
Theódóra S. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs, hefur kallað eftir upplýsingum um það hvort skólpmengunin hafi farið inn í Kópavog. Að sögn Tore er tekið sýni meðfram ströndinni þrisvar á ári. Jafnan eru sýnin tekin í maí, ágúst og svo október.
Í síðustu viku voru tekin sýni vegna skólpmengunar við Faxaskjól. „Niðurstöður sýna að strandlengjan er svona nokkuð hrein þannig lagað,“ segir Tore í samtali við mbl.is. „Það er eitthvað um staðbundna mengun hjá okkur, sem sagt yfirborðsvatn sem rennur út á nokkrum stöðum er svolítið mengað eða um 200-400 bakteríur í 100 millilítrum,“ segir Tore.
Aðspurður hvort það sé meira en hefur mælst áður segir hann svo ekki vera. „Sýnið sjálft er tekið mjög nálægt þar sem vatn kemur út í sjóinn og ef maður fer nokkra metra frá þá er yfirleitt bakteríumagnið komið vel undir 100 [í 100 millilítrum], þetta þynnist hratt,“ segir Tore.
Að sögn Tore lítur því út fyrir að skólpmengunin hafi ekki haft áhrif á svæði innan Kópavogs og hann telur ekki ástæðu til þess að vara fólk við mengun. „Straumarnir liggja í raun og veru frá Faxaskjóli út í Faxaflóa en ekki svo mikið inn í Fossvoginn,“ segir Tore að lokum.