Elín Margrét Böðvarsdóttir
„Eftir að þessi mál voru öll til lykta leidd, sérstaklega þetta með eignarhaldið á jörðinni Felli og niðurstaðan varð sú að ríkið eignaðist það, þá var það alltaf hluti af áformum ríkisins að þetta yrði lagt inn í þjóðgarðinn til þess að skipuleggja og halda utan um þetta svæði. Þetta er náttúrlega einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og er undir alveg ofboðslegu álagi, þarna er fólk um allt,“ segir Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, í samtali við mbl.is.
Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra mun á morgun undirrita reglugerð sem felur í sér friðlýsingu Jökulsárlóns. Lónið mun því frá og með undirrituninni á morgun verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.
Jón Geir segir ákvörðun um friðlýsinguna hafa átt sér langan aðdraganda en um sé að ræða einhverjar merkustu náttúruminjar á landinu. Málið hafi svo farið á fullt skrið í framhaldi þess að ríkið eignaðist jörðina en að sögn Jóns Geirs er megintilgangur friðlýsingarinnar að koma svæðinu til framtíðar fyrir innan þjóðgarðsins í því skyni að hlúa betur að svæðinu.
„Meiningin með þessu er að koma þessu svæði undir samræmda stjórn þannig að það verði hægt að byggja þarna upp til framtíðaraðstöðu sem er alls ekki í nógu góðu lagi núna miðað við hvað þetta er fjölsóttur staður og það er þá þjóðgarðsins að skipuleggja það á samræmdan hátt til framtíðar,“ segir Jón Geir.