Getur átt von á bótamáli vegna Jökulsárlóns

Um­hverf­is­ráðherra mun á morg­un und­ir­rita reglu­gerð sem fel­ur í sér …
Um­hverf­is­ráðherra mun á morg­un und­ir­rita reglu­gerð sem fel­ur í sér friðlýs­ingu Jök­uls­ár­lóns. Lögmaður Fögrusala ehf. segir að friðlýsing sé „brútal aðgerð af hálfu ríkisins“. mbl.is/RAX

„Þetta er brútal aðgerð af hálfu ríkisins,“ segir Hró­bjart­ur Jónatans­son, lögmaður Fögrusala ehf. sem keyptu jörðina Fell í vetur, um áætlaða friðlýsingu á Jökulsárlóni. Að hans sögn er verið að sækja mál á hendur ríkisins sem gæti leitt til þess að lónið teljist ekki eign þess. Það sé því sjálfsagt að bíða með friðlýsingu þar til því máli sé lokið.

Hróbjartur segir umhverfisráðherra eiga að vita af dómsmálinu, enda sé fjármálaráðherra í fyrirsvari fyrir málið fyrir hönd ríkisins. Hefti friðlýsingin not á eigninni og teljist forkaupsréttur ríkisins ekki gildur, eigi ríkið von á bótamáli.

„Ekki komnar neinar lyktir í þessu máli“

Björt Ólafs­dótt­ir um­hverf­is­ráðherra mun í dag und­ir­rita reglu­gerð sem fel­ur í sér friðlýs­ingu Jök­uls­ár­lóns. Lónið mun því frá og með und­ir­rit­un­inni verða hluti af Vatna­jök­ulsþjóðgarði.

Fögru­sal­ir ehf. keyptu jörðina Fell við Jök­uls­ár­lón í vetur en ríkið nýtti þá forkaupsrétt sinn. Lögum sam­kvæmt hefur ríkið 60 daga til að ganga inn í kauptil­boðið, tilkynning ríkisins barst eftir 66 dag­a. 

Í framhaldi af því kærðu Fögrusalir ehf. ríkið á grundvelli nauðungarsölulaga og töldu héraðsdómur og Hæstirétt­ur Íslands að þau ættu ekki við. Var þá höfðað almennt einkamál til að fá úr því skorið hvort forkaupsrétturinn hafi verið niðurfallinn eða ekki og er það mál enn í gangi. Að sögn Hróbjarts verður málflutningur í október.

Hróbjartur Jónatansson.
Hróbjartur Jónatansson.

„Staðreyndin er sú að það eru ekki komnar neinar lyktir í þessu máli,“ segir Hróbjartur. 

„Tala þau ekki saman í ríkisstjórninni?“

„Þetta er brútal aðgerð af hálfu ríkisins að fara í friðlýsingaraðgerðir núna þegar það veit að eignarréttur þess er ekki óskilyrtur,“ segir hann. Enn sé uppi ágreiningur um það hvort tilkynning ríkisins um kaup á eigninni hafi verið fullnægjandi samkvæmt náttúruverndarlögum.  

Friðlýsing geti vel átt rétt á sér en að fara í slíkar aðgerðir núna á þessum tíma sé óeðlilegt. „Auðvitað á ríkið ekki að taka neinar ákvarðanir undir þessum kringumstæðum þegar enn er í gangi dómsmál sem hugsanlega leiðir til þess að ríkið teljist ekki vera eigandinn,“ segir Hróbjartur.

Það komi honum því á óvart að ríkisstjórn ræði málið eins og því sé lokið. Honum sé ekki ljóst hvort Björt fari með rangt mál af ásettu ráði en það sé afar furðulegt að umhverfisráðherra hafi ekki verið upplýstur um að dómsmál sé enn í gangi út af jörðinni.

„Að Björt Ólafsdóttir sé að lýsa yfir að það sé búið að leysa úr þessum ágreiningi er mjög einkennilegt vegna þess að fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir málið. Tala þau ekki saman í ríkisstjórninni?“ spyr hann.

Björt Ólafs­dótt­ir um­hverf­is­ráðherra mun á morg­un und­ir­rita reglu­gerð sem fel­ur …
Björt Ólafs­dótt­ir um­hverf­is­ráðherra mun á morg­un und­ir­rita reglu­gerð sem fel­ur í sér friðlýs­ingu Jök­uls­ár­lóns. Lónið mun því frá og með und­ir­rit­un­inni á morg­un verða hluti af Vatna­jök­ulsþjóðgarði. mbl.is/Hanna

 „Viðblasandi bótaskylda“ af hálfu ríkisins

Hróbjartur segir að friðlýsing kunni að hefta fjárhagsleg not af eigninni og ef niðurstaða dómstóla yrði að forkaupsréttur hafi verið niðurfallinn þá sé „viðblasandi bótaskylda“ af hálfu ríkisins. Þegar salan á jörðinni hafi átt sér stað hafi ákveðnar grundvallarástæður legið fyrir sölunni, sem hafi meðal annars byggt á þeirri hagnýtingu sem jörðin bjóði upp á, samkvæmt gildandi skipulagi. Þær forsendur séu mögulega brostnar.

„Það liggur auðvitað fyrir að ríkið er ekki í góðri trú að mega gera þetta,“ segir Hróbjartur. Þá sé augljóst að ef forkaupsréttur verði dæmdur ógildur séu Fögrusalir ehf. hugsanlega með lakari eign í höndunum en þeir upprunalega voru með þegar eignin var keypt. „Ríkið hlýtur að bera ábyrgð á því. Ríkið getur ekki tekið fjárhagslega hagsmuni af fólki bótalaust.“

Ríkið verði að fylgja lögum og úrskurðum dómsmála. Á meðan það eigi ekki eignina skilyrðislaust verði það að bíða. Að sögn Hróbjartar er það sjálfsögð og eðlileg krafa í réttarríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka