„Íslendingar allir eiga þessa náttúruperlu“

Jökulsárlón er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins.
Jökulsárlón er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. mbl.is/Rax

„Það er gleðidagur í dag,“ segir Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í samtali við mbl.is en í dag undirritaði hún reglugerð sem felur í sér friðlýsingu Jökulsárlóns. Björt segir áfangann stórt og mikilvægt skref í þágu náttúruverndar og öryggismála á svæðinu. Hún segir ekki fara á milli mála að náttúruperlan sé í eigu ríkisins og Íslendinga allra. Þá komi til greina að heimta bílastæðagjöld við lónið.

„Þetta er mjög mikilvægt fyrir svæðið hér og heimamenn hérna þessi friðlýsing og þessi stækkun á þjóðgarðinum,“ segir Björt. „Heimamenn eru svo ríkur þáttur í allri stjórnun á Vatnajökulsþjóðgarði, þeir eru það í gegnum sveitastjórnir og í gegnum svæðisráð sem eru nokkur í garðinum og þannig tryggjum við aðkomu heimamanna að allri stjórnun og að allri ákvarðanatöku þannig að það er mjög mikilvægt fyrir svæðið.“

Skattgreiðendur borgi ekki fyrir uppbyggingu

Hún segir heimamenn hafa ýtt mikið á eftir því að friðlýsingin yrði að veruleika og því hafi henni þótt ánægjulegt að skrifa undir reglugerðina við lónið í dag.

„Þetta er líka bara mjög mikilvægt upp á alla uppbyggingu við Jökulsárlónið […] Við höfum alveg séð það að öryggi hefur verið ábótavant og bílastæðin eru dálítið í óreiðu og umferð og annað en þarna gefst okkur kostur á að byggja þetta upp þannig að okkur sé meiri sómi að,“ segir Björt.

Frá undirritun reglugerðarinnar við Jökulsárlón í dag.
Frá undirritun reglugerðarinnar við Jökulsárlón í dag. mbl.is/Rax

Aðspurð hvort aukið fjármagn verði veitt til Vatnajökulsþjóðgarðs í samræmi við stækkun hans og aukin verkefni segir Björt þjóðgarðinn búa yfir leiðum til að afla sértekna til að mæta kostnaði við innviðauppbyggingu.

„Það er ekki þannig að skattgreiðendur þurfi að borga fyrir þessa uppbyggingu. Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð þá eru heimildir til bílastæðagjalda til dæmis þannig að sú uppbygging sem framundan er þar er frekar sjálfbær myndi ég halda,“ segir Björt. Þegar sé til skoðunar að hefja gjaldtöku fyrir bílastæði við lónið.

Segir eignarhald ríkisins á Felli ótvírætt

Deilt hefur verið um forkaupsrétt sem íslenska ríkið nýtti sér við kaupin á jörðinni Felli sem Jökulsárlón tilheyrir að hluta og ríkið eignaðist fyrr á árinu. Lögmaður félagsins Fögrusala ehf., sem hugðist kaupa jörðina, hefur sagt ákvörðun ríkisins um friðlýsingu vera ótímabæra enda hafi einkamál vegna þessa ekki verið leitt til lykta.  

„Það horfir auðvitað talsvert öðruvísi við mér svo vægt sé til orða tekið. Ríkið er sannarlega þinglýstur eigandi að jörðinni Felli og ríkið á jörðina, almenningur og Íslendingar allir eiga þessa náttúruperlu og það er hreinlega okkar skylda að búa svo um hnútana að við byggjum þarna upp svo okkur sé sómi að og það gerum við meðal annars á grundvelli friðlýsingar,“ segir Björt.

„Það er gleði dagur í dag,“ segir Björt Ólafsdóttir, umhverfis- …
„Það er gleði dagur í dag,“ segir Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra sem í dag undirritaði hún reglugerð sem felur í sér friðlýsingu Jökulsárlóns. mbl.is/Rax

Hún kveðst ekki hafa heyrt rök fyrir því að ekki ætti að friðlýsa lónið en hún myndi þá „hlusta með mikilli athygli“ ef einhver reyndi að færa rök fyrir því að ekki væri mikilvægt að friðlýsa Jökulsárlón. Það hefði ekki komið til álita áður en ákvörðun var tekin um friðlýsingu.

„Ríkið á jörðina“

Lögmaður Fögrusala ehf. hefur sagt að ef í ljós komi að friðlýs­ing kunni að hefta fjár­hags­leg not af eign­inni og ef niðurstaða dóm­stóla yrði sú að for­kaups­rétt­ur hafi verið niður­fall­inn þá blasi við bótaskylda af hálfu rík­is­ins. 

„Þetta er náttúrlega eitthvað sem er algjörlega úr lausu lofti gripið og auðvitað eitthvað sem þessi lögmaður í umboði fyrir sína skjólstæðinga er að stilla svona upp. Það er auðvitað bara hans vinna og ég ber fulla virðingu fyrir því,“ segir Björt innt eftir viðbrögðum vegna þessa.

„Þetta er auðvitað bara mjög einfalt í huga mínum og það er þannig að ríkið á jörðina og við erum ekki að fara að sitja og gera ekki neitt út af því að aðili úti í bæ kynni að fara í mál við okkur. Það auðvitað myndi bara ekki gerast yfir höfuð á Íslandi,“ segir Björt.

Ferðamenn við Jökulsárlón.
Ferðamenn við Jökulsárlón. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert