Liggja milljarðar við strendur Íslands?

Rannsóknarskipið Seabed Constructor á meðan lögreglurannsókn fór fram á starfsemi …
Rannsóknarskipið Seabed Constructor á meðan lögreglurannsókn fór fram á starfsemi þess. mbl.is/Golli

Hópur breskra fjársjóðsleitarmanna hefur fundið kistu í þýska flakinu Minden, sem sökk suður af Íslandi árið 1939, sem gæti innihaldið nasistagull að andvirði hundrað milljónir punda eða hátt í fjórtán milljarða króna. Þessu heldur breski miðillinn Mail Online fram.

Eins og fjallað hefur verið um var norska rannsóknarskipinu Sea­bed Constructor stefnt til hafnar hér á landi af Landhelgisgæslunni í apríl vegna gruns um ólöglegar rannsóknir á þýska kaupskipinu Minden. Í kjölfarið var sótt um starfsleyfisumsókn hjá Umhverfisstofnun, en ef hún verður samþykkt gæti rannsóknarskipið hafið neðansjávarframkvæmdir við Minden snemma í haust.

Gull frá suðuramerískum bönkum

Fyr­ir­tækið sem sæk­ir um leyfið heit­ir Advanced Mar­ine Services Ltd. og er skráð í Bretlandi. Það hef­ur ekki upp­lýst Um­hverf­is­stofn­un um hvaða verðmæti megi finna í flak­inu en í vor töluðu skip­verj­ar óljóst um verðmæta málma við yf­ir­völd. Í frétt Mail Online kemur fram að um sé að ræða allt að fjögur tonn af verðmætum málmum sem talið sé að sé gull frá suðuramerískum bönkum.

Samkvæmt frétt breska miðilsins Sun vilja fjársjóðsleitarmennirnir fara með málmana til Bretlands. 

Vilja skera í skipsskrokkinn

Eftir afskipti Landhelgisgæslunnar af Seabed Constructor í apríl fór skipið aft­ur út á sjó og voru skip­verj­ar byrjaðir að rífa flak Mind­en þegar Land­helg­is­gæsla hafði aft­ur af­skipti af þeim. Eft­ir óvissu um lög­mæti fram­kvæmd­anna kom í ljós að áhöfn­in þyrfti starfs­leyfi frá Um­hverf­is­stofn­un. 

Lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun sagði í samtali við mbl.is fyrr í mánuðinum að sótt hefði verið um að fara með kafbát niður að skipinu og skera í skipsskrokkinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert