„Við erum, stjórnin og starfsfólkið, að vinna að því að rétta af hallann,“ segir Stefán Hrafn Jónsson, varaformaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is. Neytendasamtökin settu tilkynningu á vef sinn í gær þar sem fram kemur að starfsemi samtakanna muni halda áfram með óbreyttu sniði. Eru stjórnin og starfsfólk samtakanna nú sögð vinna hörðum höndum að því að rétta af halla í rekstri samtakanna og segist varaformaður bjartsýnn á að það takist.
Eins og mbl.is hefur greint frá þá sagði stjórn samtakanna upp öllu starfsfólki í lok síðasta mánaðar í „ljósi aðstæðna“. Þá kom fram að það væri liður í endurskipulagningu og endurfjármögnun samtakanna. Í tilkynningu samtakanna að þessu sinni segist stjórnin bjartsýn að unnt verði að endurráða starfsfólk hið fyrsta.
Átök hafa verið innan samtakanna síðustu mánuði en í byrjun maí lýsti stjórnin yfir vantrausti á formanninn Ólaf Arnarson. Var það mat meirihluta stjórnar samtakanna að Ólafur hafi ítrekað leynt stjórnina upplýsingum og skuldbundið samtökin efnum framar.
Stefán Hrafn segir fyrstu skrefin í að laga hallann vera að draga verulega úr útgjöldum. „Svo erum við að leita leiða til að brúa síðasta bilið,“ bætir hann við. Að hans sögn er stjórnin bjartsýn á að það takist.
Samkvæmt tilkynningunni eru einhverjir starfsmenn í sumarfríi en skrifstofur samtakanna í Reykjavík og á Akureyri eru opnar engu að síður.
Stjórn Neytendasamtakanna hefur einnig boðað til félagsfundar 17. ágúst næstkomandi. Á fundinum verður farið yfir stöðu mála og leitað eftir aðstoð og tillögum frá félagsmönnum að því er fram kemur. Dagskrá, staðsetning og nánari tímasetning verður auglýst fljótlega.