Rafmagnslausir með brotið mastur

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson var í þrjátíu sjómílna fjarlægð frá staðsetningu …
Rannsóknaskipið Árni Friðriksson var í þrjátíu sjómílna fjarlægð frá staðsetningu sendisins og óskaði því stjórnstöð eftir því að hann færi þegar í stað á vettvang. mbl.is/Sigurður Bogi

Óljóst er hvert framhaldið verður með bandarísku skútuna sem lenti í vandræðum suðvestur af landinu í nótt.  Landhelgisgæslan segir að það fari eftir ástandi hennar, en mastrið hafði brotnað og rafmagnslaust var um borð. Þrír voru um borð í skútunni og sluppu allir ómeiddir.

Landhelgisgæslan segir í tilkynningu að boð úr neyðarsendi djúpt suðvestur af landinu hafi borist stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um klukkan hálffimm í nótt, en þetta var skammt utan við íslensku lögsögumörkin.

Gæslan segir að nánari eftirgrennslan hafi leitt í ljós að sendirinn tilheyrði bandarískri skútu. Kveikt var á sendinum handvirkt og því full ástæða til að ætla að þarna væri alvara á ferð.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson var í þrjátíu sjómílna fjarlægð frá staðsetningu sendisins og óskaði því stjórnstöð eftir því að hann færi þegar í stað á vettvang. Einnig var varðskipinu Þór, sem er við eftirlit suður af landinu, stefnt þangað.

Sökum þess að flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, er við landamæraeftirlit í Miðjarðarhafi á vegum Frontex var flugvél Isavia kölluð út, svo og Challenger-eftirlitsvél danska flughersins í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði) á Grænlandi.

Að sögn Gæslunnar, fór flugvél Isavia í loftið upp úr klukkan níu og var hún komin á vettvang um klukkustund síðar. Skömmu síðar bárust fréttir af því að áhöfn hennar hefði fundið skútuna og allir um borð væru heilir á húfi. Mastrið hafði brotnað og rafmagnslaust var um borð. Frekari leitaraðgerðir voru þá afturkallaðar, nema að varðskipið Þór hélt áfram för sinni á vettvang.

Samkvæmt upplýsingum frá Árna Friðrikssyni eru skipverjar á skútunni komnir um borð í rannsóknaskipið. Þeir yfirgáfu skútuna í gúmmíbjörgunarbát. Óljóst er hvert framhaldið verður með skútuna, það fer eftir ástandi hennar.

Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku strandgæslunni lét skútan úr höfn frá Virginíuríki í Bandaríkjunum í byrjun þessa mánaðar og var förinni heitið til Íslands. Þrír voru um borð í skútunni.

Skútan fannst djúpt suðvestur af landinu.
Skútan fannst djúpt suðvestur af landinu. Kort/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert