Skjálftahrinan, sem hófst norðaustan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga í morgun, stendur enn. Á annað hundrað skjálfta hefur mælst síðan í morgun, þar sem flestir voru af stærðinni 1,0 og 2,0. Þá hafa mælst sjö skjálftar sem hafa verið um 3,0 að stærð eða stærri.
Eins og mbl.is greindi frá í morgun, greindust tveir skjálftar um 3,0 að stærð, annars vegar klukkan 07.27 og svo klukkan 07.56 í morgun. Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands greindust um hádegisbil fjórir skjálftar að stærð 3,0 eða stærri. Stærsti skjálftinn um það leyti mældist klukkan 11.40 og var 3,9 að stærð.
Klukkan 13.55 varð svo skjálfti að stærð 4,0 með upptök um tvo og hálfan kílómetra austan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga varð. Síðan þá hafa minni skjálftar fylgt eftir. Að sögn Gunnars B. Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings hjá Veðurstofu Íslands, á hann ekki von á fleiri stórum skjálftum. Það sé þó ekki víst.
Samkvæmt upplýsingum frá Kristínu Jónsdóttur jarðskjálftafræðingi eru hrinur á þessu svæði mjög algengar. „Við höfum séð það undanfarin ár að þarna verða hrinur,“ segir hún. „Þetta er mjög týpískt fyrir Reykjanesið,“ bætir hún við.
Upplýsingar um jarðskjálfta á vef Veðurstofu Ísland