Tvær flugvélar á leið til skútunnar

Varðskipið Þór er á leið til skútunnar.
Varðskipið Þór er á leið til skútunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Flugvél Isavia hefur verið kölluð út vegna bandarísku skútunnar sem sendi frá sér boð úr neyðarsendi um klukkan hálffimm í nótt. Flugvélin er búin nákvæmum miðunarbúnaði og fer hún í loftið upp úr klukkan níu og verður komin á vettvang um klukkustund síðar. Einnig hefur Challenger-eftirlitsflugvél danska flughersins í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði) á Grænlandi verið kölluð út. Búist er við að hún verði komin á vettvang um klukkan ellefu. 

Áhöfn rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar sér ratsjármerki sem líklega er frá sendi bandarísku skútunnar. Skipið á skamma leið ófarna að merkinu. Þetta kemur fram í tilkynningu Landhelgisgæslunnar. 

Varðskipið Þór er einnig á leiðinni á staðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert