Héldu að þeir væru að drukkna

Skipverjarnir eru nú í góðu yfirlæti um borð í rannsóknaskipinu …
Skipverjarnir eru nú í góðu yfirlæti um borð í rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Skipverjarnir þrír á bandarísku skútunni, sem lentu í vandræðum suðvestur af Íslandi aðfaranótt miðvikudags, eru allir þaulreyndir sjómenn, að sögn eiginkonu eins þeirra. Skútan, sem ber nafnið Valiant, var rafmagnslaus og með brotið mastur þegar rann­sókna­skipið Árni Friðriks­son, sem hafði verið að störfum skammt frá kom þeim til hjálpar.

Á vef bandaríska blaðsins Richmond Times-Dispatch er haft eftir Carol Piersol, eiginkonu Morrie Piersol, eins skipverjanna, að hann hafi óttast það versta þegar skútan varð fyrir broti og valt. „Morrie sagðist hafa haldið að hann væri að drukkna,“ sagði hún í viðtali við blaðið eftir að hafa fengið símtal frá eiginmanninum um borð í rannsóknarskipinu.

„Þeir hefðu getað drukknað, ofkælst eða fengið höfuðmeiðsl. Það er margt sem getur farið úrskeiðis þegar maður hendist svona um.“

Skútan fór á kaf þegar hún fékk á sig brot, en náði svo að rétta sig við. Í frétt Richmond Times-Dispatch segir að skipverjarnir hafi ausið vatni úr skútunni og reynt að þurrka föt sín eftir að skútan komst á réttan kjöl. Þá hafi þeir skorið í sundur dýnu til að reyna að koma í veg fyrir að þeir ofkældust. 

Piersol segir skipverjana vera mjög ánægða með björgunina og móttökurnar sem þeir hafi fengið um borð í Árna Friðrikssyni.

Morrie, eiginmaður Piersol, er kennari á eftirlaunum og var hann á ferð með þeim Wes Jones, sem var skiptstjóri Valiant, og Bobby Forrest.

Mennirnir lögðu af stað í siglinguna 1. júlí og ætluðu að sigla til Íslands með viðkomu í Nova Scotia, á Nýfundnalandi og Grænlandi. Þeir urðu hins vegar að hætta við Grænlandsstoppið vegna hafíss og urðu þar með að taka krók á leið sína frá St. Johns á Nýfundnalandi til Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert