Keppendur hjóla í þrjá daga samfleytt

Glacier 360-keppnin er oft erfið viðureignar.
Glacier 360-keppnin er oft erfið viðureignar.

Björk Kristjánsdóttir er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Made in Mountains sem stendur fyrir Glacier 360-fjallahjólakeppninni sem fram fer dagana 11.-13. ágúst. Um er að ræða fyrstu stigakeppnina sem haldin er hérlendis eftir að Ísland var samþykkt inn í alþjóðahjólreiðasambandið.

Glacier 360 er þriggja daga fjöldægra maraþonfjallahjólakeppni (e. State Race). Maraþon kallast það þegar vegalengdin sem þú hjólar hvern dag er 60 kílómetrar eða meira,“ segir Björk Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Made in Mountains. Um er að ræða 300 kílómetra hjólreiðakeppni sem nær yfir þriggja daga tímabil og er keppnin ein sú umfangsmesta sinnar tegundar á Íslandi. Hjólað verður heldur óhefðbundnar leiðir.

„Í Glacier 360-keppninni eru hjólaðir frá 85 og upp í 110 kílómetrar á dag, þrjá daga í röð. Ræst verður frá afleggjaranum við Geysi og þaðan hjólað upp í Haukadal, Kaldárdal og áleiðis í Húsafell, þar sem gist verður eina nótt. Daginn eftir verður haldið áfram, þá verður hjólað norðanmegin við Langjökul. Hjólað verður eftir slóða sem er í eigu Húnavatnshrepps og við endum svo á Hveravöllum, þar sem við gistum eina nótt. Þaðan förum við um Þjófadali og keppnin endar svo á svæði rétt fyrir ofan Gullfoss,“ segir Björk.

Fyrsta íslenska stigakeppnin

Hjólað verður í þrjá daga samfleytt með næturstoppi í Húsafelli. …
Hjólað verður í þrjá daga samfleytt með næturstoppi í Húsafelli. Eins og sjá má eru oft farnar óhefðbundnar leiðir.


Þetta er í annað skiptið sem keppnin er haldin. Hjólað verður í tveggja manna teymum og segir Björk að þátttakan sé mjög góð. „Þátttakan hefur aukist um það bil 30-50 prósent milli ára. Frumraunin gekk rosalega vel í fyrra, veðrið átti stóran þátt í því, við fengum frábært veður allan tímann.“

Skipulag keppninnar er sem áður sagði í höndum fyrirtækisins Made in Mountains og munu keppnishaldarar meðal annars sjá um flutning á öllum farangri fyrir keppendur, tjalda fyrir þá og sjá um mat í bækistöðvum. Þá verða drykkjarstöðvar á vel völdum stöðum, sem og öryggisgæsla. Björk segir að um einstaka keppni sé að ræða. „Það sem er merkilegt við þessa keppni er að þetta er fyrsta maraþonhjólreiðakeppnin sem er haldin hér á landi síðan Ísland varð meðlimur í alþjóðahjólreiðasambandinu UCI, en Ísland gekk í sambandið árið 2015. Þetta er semsagt fyrsta keppnin sem flokkast sem UCI-stigakeppni. Það þýðir að ef einstaklingur er að æfa sig fyrir stórmót eins og til dæmis Ólympíuleikana getur viðkomandi tekið þátt í þessari keppni og safnað stigum sem hann þarf til að ná upp í þann fjölda stiga sem er krafist fyrir stórmót.“

Keppni sem sló í gegn

Keppt er í tveggja manna teymum og reynir keppnin oft …
Keppt er í tveggja manna teymum og reynir keppnin oft mjög á þol og styrk keppenda.


UCI stendur fyrir Union Cycliste Internationale sem eru viðurkennd samtök af alþjóðlegu ólympíunefndinni. Samtökin eru meira en aldargömul en þau voru stofnuð í París í Frakklandi árið 1900. Höfuðstöðvar samtakanna eru í Sviss og hafa ótal viðburðir verið haldnir undir merkjum þeirra síðan, nú í fyrsta sinn á Íslandi. En hvernig kom hugmyndin að þessari keppni til?

„Þetta kom þannig til að við eigum mjög hugmyndaríka vini og vandamenn. Þetta var búið að bærast um í huga margra í dálítinn tíma og þau bentu okkur á þessa leið. Við fórum og skoðuðum leiðina og ákváðum í kjölfarið að kýla á þetta og athuga hvort það væru ekki einhverjir sem hefðu áhuga.“ Sú virðist hafa verið raunin því keppnin vakti gríðarlega athygli í fyrra þegar hún var fyrst haldin og áhuginn virðist engu minni í ár. Björk segir að tími sé kominn á slíka keppni hér á landi. „Það er mjög stór markaður fyrir svona keppnir erlendis, þetta er vel þekkt keppnisfyrirkomulag um heim allan en hefur einhverra hluta vegna ekki verið það hingað til á Íslandi. Það er að breytast núna.“

Glacier 360 er fjöldægra maraþonfjallahjólakeppni sem fram fer dagana 11.-13. ágúst. Keppt er í teymi og skráningarfrestur í keppnina er til 31. júlí. www.glacier360.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka