Mjög hefur dregið úr jarðskjálftahrinunni sem hófst austan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga í gærmorgun. Smá hrina var í morgun en annars hefur hún verið í rénun samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Yfir 500 skjálftar hafa mælst í hrinunni, sem hófst upp úr klukkan sjö í gærmorgun.
Stærsti skjálfti hrinunnar var í gær klukkan 13:55 en hann var 4,1 að stærð. Skjálftarnir hafa fundist víða á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu. Stærsti skjálftinn sem hefur orðið í dag var 2,8 að stærð. Flestir eru töluvert minni.
„Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga er við flekaskilin og stafar að öllum líkindum af þeim,“ sagði Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur í samtali við Morgunblaðið og benti á að virknin á Reykjanesi væri með hressasta móti.
„Virknin á Reykjanesskaganum hefur verið lítil undanfarin ár, svo þessi skjálftahrina er með hressasta móti sem við höfum séð í svolítinn tíma. Það eru þó þekktar stærri hrinur en þetta á svæðinu.“
Í gærkvöldi urðu tveir jarðskjálftar í Mýrdalsjökli sem fundust í nærliggjandi sveitum. Sá fyrri varð klukkan 22:15 og var af stærðinni 3,2. Sá seinni varð kl. 22:18 og var 4,5 að stærð.
Nánar um skjálftavirkni á vef Veðurstofu Íslands