Vestmannaeyjabær krefst þess að samgönguráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Samgöngustofu um að heimila ekki siglingar Akranesferjunnar eða sambærilegs skips milli lands og Eyja. Þetta kemur fram í stjórnsýslukæru sem var send samgönguráðuneytinu í morgun.
Eimskip óskuðu eftir heimild frá Samgöngustofu um að nota háhraðaferjuna Akranesið til að flytja farþega milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja yfir verslunarmannahelgina vegna Þjóðhátíðar. Ferjan hefur heimild til farþegaflutninga milli Akraness og Reykjavíkur á hafsvæði C en hafsvæðið milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja er sömuleiðis í flokki C.
„Þessi sigling er sambærileg að öllu leyti nema bara styttri milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, um samanburðinn á siglingaleiðunum. Ferjan þarf sérstaka heimild frá Samgöngustofu til siglinga milli lands og Eyja en beiðninni var hafnað án haldbærra raka, segir Elliði. Til stóð að auka flutningsgetu til og frá Vestmannaeyjum yfir helgina en mikið er bókað í ferðir Herjólfs á föstudeginum til Eyja og mánudeginum til baka.
Elliði vonast til að Samgöngustofa sjái að sér og að ákvörðunin sé komin til vegna mistaka. „Það má ekki bitna á þúsundum íbúa í Vestmannaeyjum og tugþúsundum gesta okkar að Samgöngustofa gangi svona langt. Það er illa fyrir okkur komið þeagr helsti flöskuhálsinn í lífsgæðum okkar er embættismenn,“ segir Elliði.