Skipverjarnir þrír á bandarísku skútunni sem lentu í vandræðum suðvestur af Íslandi aðfaranótt miðvikudags eru komnir í land. Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson, sem bjargaði þeim úr sjálfheldu, sigldi með þá til Grindavíkur í morgun.
Þetta staðfesti Ingvi Friðriksson, skipstjóri á Árna Friðrikssyni, í samtali við mbl.is. Þegar rannsóknarskipið kom þeim til hjálpar var skútan rafmagnslaus og með brotið mastur, en hún hafði farið á kaf þegar hún fékk á sig brotsjó. Náði hún að rétta sig við og mennirnir komust allir heilir á húfi frá aðstæðunum.
Eru þeir nú í höndum bandaríska sendiráðsins sem aðstoðar þá við næstu skref.