Stígamót hvorki sýnt fagmennsku né ábyrgð

Stígamót hafa ekki tekið á máli Helgu Baldvins Bjargar af fagmennsku eða ábyrgð, segja konur sem segjast hafa svipaða reynslu og Helga af starfsumhverfinu innan samtakanna. Þær gagnrýna að ekki hafi verið rætt við þær þegar mat á vinnuumhverfinu fór fram nýverið.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá konunum en undir hana rita, auk Helgu, Thelma Ásdísardóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Ingibjörg Kjartansdóttir og Guðný Hafliðadóttir. Konurnar eru fleiri en sumar kjósa að koma ekki fram undir nafni.

Ráðist var í starfsumhverfismatið í kjölfar þess að Helga steig fram og tjáði sig um reynslu sína af Stígamótum. Níu aðrar konur fylgdu á hæla hennar og tóku undir með henni í sameiginlegri yfirlýsingu.

Í tilkynningu sem Stígamót sendu frá sér fyrir um viku síðan sagði að samtökin hefðu verið hreinsuð af ásökunum í kjölfar mats og að Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta sem steig til hliðar á meðan matið fór fram, hefði aftur tekið til starfa.

„Niðurstaða mats á starfsumhverfi Stígamóta olli okkur miklum vonbrigðum. Ekki var rætt við neina okkar eða gerð tilraun til þess að ná í okkur, þó var það vegna yfirlýsingar frá okkur sem Stígamót ákváðu að fara í áðurnefnt mat,“ segir m.a. í yfirlýsingu sem áðurnefndar sendu fjölmiðlum í dag.

„Við reiknum að sjálfsögðu með því að Stígamót skilji nauðsyn og réttmæti þess að ræða við brotaþola, enda hefur slíkt verið eitt af stóru baráttumálum samtakanna í mörg ár.“

Yfirlýsingin í heild:

„Niðurstaða mats á starfsumhverfi Stígamóta olli okkur miklum vonbrigðum. Ekki var rætt við neina okkar eða gerð tilraun til þess að ná í okkur, þó var það vegna yfirlýsingar frá okkur sem Stígamót ákváðu að fara í áðurnefnt mat.

Við viljum ítreka að við trúum frásögn Helgu Baldvins Bjargar þar sem við eigum sambærilega reynslu af því að starfa á vettvangi Stígamóta. Að okkar mati hefur óheilbrigð vinnustaðarmenning verið viðvarandi innan Stígamóta til fjölmargra ára. Við getum staðfest það að Helga er ekki sú fyrsta sem hefur brotnað undan sambærilegum atlögum og hún hefur greint frá.  

Við óskuðum eftir því áður að tekið yrði á málinu af fagmennsku og ábyrgð og við getum ekki séð að það hafi verið gert. Því förum við eindregið fram á að annað og viðameira mat verði gert þar sem rætt verður við brotaþola en ekki eingöngu þá sem eiga hagsmuna að gæta. Við reiknum að sjálfsögðu með því að Stígamót skilji nauðsyn og réttmæti þess að ræða við brotaþola, enda hefur slíkt verið eitt af stóru baráttumálum samtakanna í mörg ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert