Stöðvuðu kannabisræktun í Þorlákshöfn

Kannabisplanta. Mynd úr safni.
Kannabisplanta. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lögreglan á Suðurlandi lagði hald á 68 kannabisplöntur og 154 græðlinga í Þorlákshöfn í hádeginu í gær. Húsráðandi, karlmaður á fimmtugsaldri, gekkst við brotinu við yfirheyrslu lögreglu og var sleppt strax að henni lokinni.

Lögreglan lagði einnig hald á búnað til kannabisræktunar í húsinu. Í húsinu fannst 20 lítra fata og í henni um það bil eitt til tvö kíló af kannabislaufum tilbúnum til neyslu, að sögn lögreglunnar á Suðurlandi, en efnið á þó eftir að vigta nákvæmlega. Af magninu að dæma hefur ræktunin ekki verið ætluð eingöngu til heimabrúks, að sögn lögreglu. 

Lögreglunni barst ábending um að mögulega væri kannabisræktun í húsinu en megn lykt af plöntunni hefur líklega kitlað nefskyn glöggra vegfarenda í bænum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka