Rafleiðni í Múlakvísl virðist hafa náð ákveðnum toppi í bili og mælist nú um 420 µS/cm. Hún getur þó vaxið aftur að sögn Einars Hjörleifssonar náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu. Áin er gríðarstór og mikil lykt er af henni. Óvenjulítið ber á sigkötlunum í Mýrdalsjökli.
„Við höfum ekki mælt vatn á vatnsmælinum okkar við Léreftshöfuð, hann stendur á þurru. Ef það kemur skyndilega mikill vatnsflaumur þá fáum við merki frá mælinum,“ segir Einar en í kjölfarið hefði Veðurstofa samband við Almannavarnir og viðbragðsaðila á svæðinu.
„Eins og er virðist vera jafnt og þétt flæði frá jöklinum,“ segir Einar.
Vegagerðin er á staðnum og tilbúin að loka veginum ef þörf krefur í samráði við Almannavarnir og lögregluna á Suðurlandi.
„Það lítur ekki illa út í augnablikinu; lítur betur út en í nótt en það getur breyst hratt ef eitthvað nýtt kemur upp,“ segir Ágúst Bjartmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Vík. Allir garðar standa enn þá og ekkert sem hindrar umferð. Ágúst er tiltölulega bjartsýnn á framhaldið „en ég verð reyndar oft fyrir vonbrigðum,“ segir hann að lokum.
Að sögn Reynis Ragnarssonar flugmanns sem hefur fylgst með Mýrdalsjökli og séð um mælingar í ánni í fjölda ára ber óvenjulítið á sigkötlunum í jöklinum. „Það gæti bent til þess að það er ekki að fara úr neinum einum katli en það er erfitt að átta sig á því,“ segir Reynir.