Skemmdir á varnargarði Múlakvíslar

Hlaupið er nú í rénun en ekki útséð hvort það …
Hlaupið er nú í rénun en ekki útséð hvort það fjari út eða bæti í á ný. mbl.is/Jónas Erlendsson

Jökulhlaupið í Múlakvísl er í rénun og rafleiðni fer áfram hægt minnkandi. Enn er þó full ástæða til þess að sýna gát við ánna. Smávægilegar skemmdir urðu á varnargarði en engar tafir eru á umferð.

„Það kom smá skarð í varnargarðinn sem þegar er búið að ýta í,“ segir Ágúst Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík. Ekki þykir ástæða til þess að Vegagerðin sé enn með stöðuga vakt á svæðinu en eftirlit er nú á tveggja tíma fresti.

Samkvæmt lögreglunni á Suðurlandi flaug þyrla yfir Mýrdalsjökul fyrir skömmu og var þar ekkert markvert að sjá. Lögreglumenn eru á svæðinu og að sögn er málið í biðstöðu og ekki útséð hvort hlaupið fjari út eða aukist á ný.

Samkvæmt niðurstöðu samráðsfundar er hlaupið nú í rénun. Enn er þó mikið flóðavatn í ánni. Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu. „Rafleiðni mælist nú 330 µS/​cm og fer hægt minnkandi. Við teljum að flóðið hafi náð hámarki og samkvæmt mælingum bendir til þess að það sé í rénun,“ segir Einar.

Mikið vatn er í ánni og árfarvegurinn er stór og mikill að sögn Einars. „Það er enn þá full ástæða til að sýna gát við ána,“ segir Einar að lokum.

Lögregla og Vegagerðin að störfum við Múlakvísl.
Lögregla og Vegagerðin að störfum við Múlakvísl. mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert