Jökulhlaupið í Múlakvísl er í rénun og rafleiðni fer áfram hægt minnkandi. Enn er þó full ástæða til þess að sýna gát við ánna. Smávægilegar skemmdir urðu á varnargarði en engar tafir eru á umferð.
„Það kom smá skarð í varnargarðinn sem þegar er búið að ýta í,“ segir Ágúst Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík. Ekki þykir ástæða til þess að Vegagerðin sé enn með stöðuga vakt á svæðinu en eftirlit er nú á tveggja tíma fresti.
Samkvæmt lögreglunni á Suðurlandi flaug þyrla yfir Mýrdalsjökul fyrir skömmu og var þar ekkert markvert að sjá. Lögreglumenn eru á svæðinu og að sögn er málið í biðstöðu og ekki útséð hvort hlaupið fjari út eða aukist á ný.
Samkvæmt niðurstöðu samráðsfundar er hlaupið nú í rénun. Enn er þó mikið flóðavatn í ánni. Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu. „Rafleiðni mælist nú 330 µS/cm og fer hægt minnkandi. Við teljum að flóðið hafi náð hámarki og samkvæmt mælingum bendir til þess að það sé í rénun,“ segir Einar.
Mikið vatn er í ánni og árfarvegurinn er stór og mikill að sögn Einars. „Það er enn þá full ástæða til að sýna gát við ána,“ segir Einar að lokum.