Það er lítið að frétta af Múlakvísl og Kötlu, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Engir skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í nótt og og allt bendir til þess að hlaupið í Múlakvísl sé yfirstaðið að mestu. Verið er að greina myndir sem Landhelgisgæslan tók af sigkötlunum í jöklinum í gær.
Litakóða Kötlu var breytt í gult í gær og þrátt fyrir að hlaupið sé í rénun og skjálftavirkni innan eðlilegra marka hefur Veðurstofan ákveðið að færa litakóðann ekki aftur í grænan fyrr en í fyrsta lagi eftir helgi.
Rafleiðnin í ánni stendur nú í rúmum 180 μS/cm en hún mældist 580 μS/cm í gærmorgun, rétt áður en hlaupið náði hámarki. Seinnipartinn var hún komin í 330 μS/cm.
Þar sem árfarvegurinn er breiður og áin dreifð er erfitt að segja til um vatnsmagnið í henni en að sögn vakthafandi sérfræðings hjá Veðurstofu Íslands hafa mælingar á vatnshæðamæli Veðurstofunnar farið lækkandi.
Landhelgisgæslan greindi frá því í tilkynningu sem barst fjölmiðlum í nótt að hún hefði flogið yfir Mýrdalsjökul í gær og myndað sigkatla jökulsins fyrir Veðurstofuna. Unnið er að því að greina myndirnar en fyrsta skrefið er að bera þær saman við GPS-staðsetningar.
Endanlegar niðurstöður munu ekki liggja fyrir fyrr en á morgun.
Myndir sem Reynir Ragnarsson tók af jöklinum í gærmorgun benda til þess að hlaupið sé ekki að koma úr kötlum sunnamegin í Kötluöskjunni, frekar norðan- og norðaustanmegin.
Lítið rof kom á varnargarðinn við Múlakvísl í gær en Vegagerðin var á vettvangi og greip umsvifalaust til aðgerða.