„Að taka tvo 8.000 metra tinda í sömu ferðinni á tveggja mánaða tímabili er náttúrulega rosalega stórt afrek,“ segir Bjartur Týr Ólafsson, fjallaleiðsögumaður og stjórnarmaður ÍSALP, um John Snorra Sigurjónsson. Aðeins sjö Íslendingar hafa klárað tvo 8.000 metra tinda; John Snorri, Vilborg Arna Gissurardóttir, Anna Svavarsdóttir, Leifur Örn Svavarsson, Björn Ólafsson, Einar K. Stefánsson og Hallgrímur Magnússon.
Aðspurður hvort það teljist jafnvel meira afrek að toppa K2 en Everest segir Bjartur: „Alveg pottþétt. Það munar ekki nema einhverjum 200 metrum í hæð en erfiðleikastigið þarna [á K2] er miklu, miklu meira.“
„Fjallið er brattara og svo er það þessi mikla snjóflóðahætta sem gerir þetta mjög hættulegt. Svo er það náttúrlega þessi flöskuháls þarna í lokinn,“ segir Bjartur. Flöskuhálsinn er staðsettur um 400 metra fyrir neðan topp fjallsins. Talið er að 13 af síðustu 14 dauðaslysum á K2 hafi átt sér stað við flöskuhálsinn.
„Flöskuhálsinn er einhverskonar trekt og allt sem er fyrir ofan þessa trekt dettur þarna ofan í. Þetta er gil sem þarf að ganga eftir og ef það hrynur ís eða fellur snjóflóð þá fer það þarna niður. Því fylgir mikil áhætta að ganga eftir þessu,“ segir Bjartur.
„Manni stóð ekki alveg á sama hvað þau voru sein á toppinn, þegar maður var að fylgjast með þarna á lokametrunum,“ segir Bjartur og vísar þá til þess að ferðin úr búðum fjögur tók rúmar 18 klukkustundir í stað 10 stunda.
Hæð yfir 8.000 metrum er í fjallamennsku kallað „dauðasvæðið.“
„Þá er líkaminn bara að deyja. Hann endist ekki í þessari hæð nema bara í tvo sólarhringa sökum súrefnisleysis,“ segir Bjartur. Fjórðu búðir á K2 eru rétt undir 8.000 metra hæð og þar dvaldi John Snorri um tíma þegar hann beið færis á að ná upp á topp.
„Svo heyrði maður viðtal við hann uppi á topp þar sem hann talaði um að eiga rétt um klukkutíma eða einn og hálfan eftir af súrefni, það er orðið ansi tæpt,“ segir Bjartur og viðurkennir að um tíma hafi hann orðið smeikur um að John væri að fara aðeins fram úr sér.
„Þetta er líklega eitthvað stærsta afrek Íslendings í háfjallamennsku. Alveg klárlega,“ segir hann að lokum.
Bjartur er 24 ára Eyjamaður og hefur starfað hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum í rúm þrjú ár. mbl.is fjallaði um það þegar Bjartur náði að bjarga sér og erlendum ferðamanni eftir að hafa fallið 20 metra ofan í sprungu á Hvannadalshnjúk.