Söngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson verður ekki með atriði í Gleðigöngunni í ár. Palli eins og hann jafnan er kallaður hefur yfirleitt vakið mikla athygli í göngunni fyrir stór og skrautleg atriði en gangan er einn af hápunktum Hinsegin daga sem hefjast þann 8. ágúst. Palli hefur tekið þátt í göngunni nær óslitið frá þeirri fyrstu sem var haldin árið 1999 en til ársins 2006 sat Palli í nefndinni sem skipuleggur Hinsegin daga.
„Ég bara því miður kem því ekki við núna í ár,“ segir Palli í samtali við mbl.is, spurður hvers vegna hann hyggst ekki taka þátt í göngunni í ár. „Ef ég er að gera svona stóran skúlptúr eins og ég hef gert undanfarin ár þá venjulega byrja ég að vinna þessa skúlptúra í apríl, síðasta lagi í maí, og nú bara ber svo við að ég er grínlaust í 400% vinnu,“ útskýrir Palli.
Hann er með mörg járn í eldinum þessa dagana og hefur verið afar önnum kafinn allt árið en hann er til að mynda að leggja lokahönd á plötu sem kemur út á næstu dögum.
„Ég er að fara að keyra hana persónulega í hús um allt land ásamt Heimkaup.is fyrir þá sem að pöntuðu hana fyrirfram í forpöntun. Ofan á þetta er ég svo að undirbúa stórtónleika sem eru 16. september í Höllinni, ég hef lítið annað gert allt árið en að undirbúa þessa tónleika enda er þetta eitt stærsta verkefni sem ég hef komið nálægt í lífinu,“ útskýrir Palli. „Ég er að fara að toppa sjálfan mig á þessum tónleikum.“
Þá er undirbúningur hafinn í Borgarleikhúsinu þar sem Rocky Horror verður frumsýnt eftir áramót en Palli mun þar fara með hlutverk Frank N Furter.
„Ég hreinlega bara get ekki komið risavagni inn í planið,“ segir Palli sem kveðst frekar vilja mæta tvíefldur til leiks á næsta ári. „Ég vissi þetta strax núna um áramótin að tónleikarnir í Höllinni myndu taka bara upp rjómann af mínum tíma allt árið,“ segir hann.
„Eftir að hafa verið með svona risastór atriði í göngunni undanfarin ár, sem hafa bara farið stækkandi ef eitthvað er, gæti ég ekki farið í þessa göngu með einhvern lítinn pick-up trukk af því ég hafði ekki tíma fyrir meira,“ segir Palli. „Ég vil frekar sleppa því að taka þátt en að minnka „standardinn“,“ bætir hann við.
Þá sé sannleikurinn einnig sá að hann hafi eytt öllum sínum peningum í stórtónleikana og því sé lítið sem ekkert eftir til að standa straum af kostnaði við flottan vagn í gleðigönguna.
„Réttindabarátta hinsegin fólks hættir ekki þótt ég geti ekki tekið þátt í einni göngu,“ segir Palli ennfremur. „Ef eitthvað er þá er hinsegin baráttan að opnast meir og meir og skilningurinn að dýpka og við erum alltaf að sjá einhverja nýja og nýja fleti sem við þurfum að vinna í. Persónulega finnst mér það sem liggur mest á er að bæta réttindi trans-fólks og intersex-fólks á Íslandi.“