Ætti ekki að vera „blóðug barátta“

Sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneytið felldi í dag úr gildi ákvörðun Sam­göngu­stofu …
Sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneytið felldi í dag úr gildi ákvörðun Sam­göngu­stofu um að veita ekki und­anþágu fyr­ir sigl­ing­ar ferj­unn­ar Akra­ness á milli Vest­manna­eyja og Land­eyja­hafn­ar. Ferjan umtalaða fær því að sigla til Eyja yfir verslunarmannahelgi. Ljósmynd/Arnaldur Halldórsson fyrir Eimskip

„Við viljum að þeim tíma fari að linna að við þurfum alltaf að slíta út með töngum allar bætur,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Hann segir það að ferjan Akranes fái að sigla til Eyja sé sigur fyrir Vestmannaeyjabæ og mjög jákvætt fyrir Þjóðhátíð. Aftur á móti sé sú gleði blönduð efa um uppbyggingu eftirlitsstofnana á Íslandi.

Sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneytið felldi í dag úr gildi ákvörðun Sam­göngu­stofu um að veita ekki und­anþágu fyr­ir sigl­ing­ar ferj­unn­ar Akra­ness á milli Vest­manna­eyja og Land­eyja­hafn­ar. Lagt var fyr­ir Sam­göngu­stofu að fall­ast á um­sókn Eim­skips um að nota ferj­una til siglinganna yfir verslunarmannahelgi.

Eim­skip sótti 17. júlí síðstliðinn til Sam­göngu­stofu um heim­ild til að nota ferj­una Akra­nes til sigl­inga milli lands og Eyja yfir verslunarmannahelgi en Sam­göng­stofa hafnaði er­ind­inu. Í fram­haldi af þessu kærði Vest­manna­eyja­bær ákvörðun Sam­göngu­stofu til ráðuneyt­is­ins. Við meðferð máls­ins til­kynnti Eim­skip ráðuneyt­inu að það styddi Vest­manna­eyja­bæ varðandi kær­una.

Ætti ekki að vera „blóðug barátta“

Að sögn Elliða verður ferjan mjög jákvæð fyrir Þjóðhátíð. „Við aukum viðbragðsgetu okkar, við getum þjónustað fólk betur og fleiri geta heimsótt okkur,“ segir hann. Þetta þjóni einnig sem góð tilraun fyrir Vestmannaeyjabæ að prófa að hafa tvær ferjur, en hann segir að bæjarfélagið hafi lengi stefnt að því yfir sumartímann.

Stærri þáttur málsins, með öllu alvarlegri undirtóni, segir Elliði vera það sem snúi almennt að samgöngum í Vestmanneyjum. „Við viljum að þeim tíma fari að linna að við þurfum alltaf að slíta út með töngum allar bætur,“ segir hann.

Að hans sögn þurfi nú að líta á samgöngur til Vestmanneyja sem hluta af öllu samgöngukerfi landsins: „Þetta er sameiginlegt verkefni okkar heimamanna og ríkisins en ekki einhver blóðug barátta.“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir það að ferjan Akranes fái …
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir það að ferjan Akranes fái að sigla til Eyja sé sigur fyrir Vestmannaeyjabæ og mjög jákvætt fyrir Þjóðhátíð. Aftur á móti sé sú gleði blönduð efa um uppbyggingu eftirlitsstofnana á Íslandi. Ófeigur Lýðsson

Hver á að hafa eftirlit með eftirlitinu?

Aðspurður segir hann ákvörðun Samgöngustofu sigur fyrir bæjarfélagið en aftur á móti veki það efasemdir um eftirlitskerfi ríkisins. „Gleðin er blönduð þessum efa um að við séum að gera rétt í uppbyggingu eftirlitsgeira á Íslandi. Þetta þarf að vera skilvirkara,“ bætir hann við.

Hann segir mikilvægt að allir eftirlitsaðilar ríkisins séu meðvitaðir um hversu íþyngjandi ákvarðanir þeirra geti verið fyrir fólk. Með þetta í huga verði þeir að vanda til verka og byggja ákvarðanir sínar ekki á geðþótta, eins og í þessu tilviki.

 „Í þessu tilviki þá gekk eftirlitsstofnunin lengra í íþyngjandi ákvörðunum heldur en efni stóðu til og það er vont þegar við þurfum að byggja upp eftirlit með eftirlitinu, því hver á svo að hafa eftirlit með þeim?“ segir Elliði.

Viðmiðanir frá Brussel innleiddar í blindni

Ráðuneytin þurfi einnig að vera iðnari við að yfirfara reglugerðir og tryggja þannig að „einhverjar viðmiðanir frá Brussel“ séu ekki „innleiddar í blindni af embættismönnum frá Íslandi“. Þær eigi ekki alltaf við.

Þá segir hann að hefði bæjarfélagið ekki fylgt þessu eftir, þá hefði samfélagið tapað mikilvægu tækifæri: „Ef við hefðum ekki verið eins innstillt og við erum hjá Vestmanneyjabæ þá hefðu þessi tækifæri verið höfð af samfélaginu,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert