Að sögn Þórhildar Elínar Elínardóttur, samskiptastjóra Samgöngustofu, er það enn álit stofnunarinnar að siglingar ferjunnar Akraness uppfylli ekki alþjóðlegar öryggisreglur, sem séu gildandi á Íslandi. Stofnunin muni þó hlýta ákvörðun ráðherra um að veita ferjunni undanþágu.
Ferjan Akranes fékk í dag heimild til að sigla til Vestmannaeyja um verslunarmannahelgi eftir að samgönguráðuneytið felldi í dag úr gildi ákvörðun Samgöngustofu sem hafði synjað ferjunni um leyfið. Eimskip sótti upprunalega um heimildina en Samgöngstofa hafnaði erindinu á þeim forsendum að skipið uppfyllti ekki alþjóðlegar öryggisreglur.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, kærði því næst ákvörðun Samgöngustofu til samgönguráðuneytisins og sagði að um geðþóttaákvörðun embættismanna væri að ræða.
„Þessi synjun okkar um að færa siglingarnar á annað svæði við allt aðrar aðstæður var byggð á því að skipið og starfrækslan uppfyllti ekki alþjóðlegar öryggiskröfur sem eru í gildi hér á Íslandi,“ segir Þórhildur.
Það hafi verið eðlilegt að byggja á Evrópulögum enda séu þau einu gildandi lögin um málefnið. Ekki séu til neinar séríslenskar reglur um háhraðaför eins og Akranes, sem eru skip sem sigla á 20 hnútum eða meira. Því hafi Samgöngustofa aðeins alþjóðlegar reglur til að styðjast við.
Nú hafi samgönguráðherra, Jón Gunnarsson, ákveðið að veita Eimskipi og Vestmannaeyjabæ undanþágu og Samgöngustofa, sem undirstofnun ráðuneytisins, muni að sjálfsögðu vinna samkvæmt ákvörðun hans.
Samgöngustofa standi aftur á móti enn með upprunalegu áliti sínu um að synja ferjunni um leyfið. Það sé enn þeirra afstaða að ferjan uppfylli ekki nauðsynlegar kröfur:
„Okkar niðurstaða kemur til af þeim faglegu forsendum sérfræðinga að skipið uppfylli ekki þessar alþjóðlegu Evrópureglur sem eru í gildi á Íslandi,“ segir Þórhildur. „Okkar faglega skoðun hefur ekki breyst,“ segir hún.
Að sögn Þórhildar var ekki um geðþóttaákvörðun að ræða. „Ákvarðanir Samgöngustofu byggja bara á gildandi lögum og þeim kröfum sem gerðar eru,“ segir hún. Hún bætir við að þessar kröfur séu settar með öryggi í samgöngum í huga.