Rúmlega helmingur miða í ferjuna seldur

Gunnlaugur segir viðbrögðin við ferjunni vera ótrúleg og að það …
Gunnlaugur segir viðbrögðin við ferjunni vera ótrúleg og að það sé greinilegt að gríðarleg þörf hafi verið á henni yfir Þjóðhátíð. mbl.is/Ófeigur

„Það er gríðarleg aðsókn í ferðir, alveg ótrúleg!“ segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða um aðsókn í ferjuna Akranes. Rúmlega helmingur miðanna í ferðir ferjunnar til Eyja er seldur, rúmum klukkutíma eftir að sala hófst. Gunnlaugur segist, í samtali við mbl.is, ekki hafa búist við þessum viðbrögðum, enda ferðir ferjunnar ekki auglýstar og tæpir tveir sólarhringar í fyrstu ferð. Nú sé áætlað að fjölga ferðunum.

Eim­skip sótti nýlega til Sam­göngu­stofu um heim­ild til að nota ferj­una Akra­nes til sigl­inga milli lands og Eyja yfir versl­un­ar­manna­helgi en Sam­göng­stofa hafnaði er­ind­inu. Í fram­haldi af þessu kærði Vest­manna­eyja­bær ákvörðun Sam­göngu­stofu til samgönguráðuneyt­is­ins.  

Sam­gönguráðuneyti felldi í dag úr gildi ákvörðun Sam­göngu­stofu og fékk ferjan því heimild til að sigla til Eyja yfir Þjóðhátíð. 

„Það er ekki búið að birta eina auglýsingu“

Settar voru til sölu tólf brottfarir til og frá Eyjum yfir Þjóðhátíð og í hverja ferð komast 100 manns. Af 1.200 miðum hafa núþegar 600-700 miðar selst. „Það er ekki búið að birta eina auglýsingu,“ segir Gunnlaugur. „Það er gríðarleg aðsókn í ferðir, alveg ótrúleg!“ bætir hann við.

Sala á miðum fór í gang fljótlega eftir að ákvörðun samgönguráðuneytisins var kynnt en að sögn Gunnlaugs voru þau tilbúin fyrir heimildina. „Við töldum í ljósi aðstæðna að við myndum fá heimildina svo við vorum farin að byrja að undirbúa okkur þó að það lá auðvitað engin ákvörðun fyrir nema rétt fyrir hádegi,“ segir hann.

Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Eimskip segir aðsókn í ferjuna vera ótrúlega.
Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Eimskip segir aðsókn í ferjuna vera ótrúlega. mbl.is/Eggert

Viðbrögðin ótrúleg

Gunnlaugur segir viðbrögðin við ferjunni vera ótrúleg og að það sé greinilegt að gríðarleg þörf hafi verið á henni. Aðspurður segir hann að hann hafi ekki ekki vitað við hverju átti að búast: „Þegar að staðfestingin kemur eru tæpir tveir sólarhringar í fyrstu ferðina svo já, ég hafði verulegar áhyggjur af því. Það var algjörlega af ástæðulausu.“ 

Ferjan fer á núverandi áætlun á tveggja tíma fresti. Ferðin með ferjunni tekur 15 mínútur svo áætlun hennar er mjög rúm eins og er. Að sögn Gunnlaugs getur ferjan auðveldlega siglt miklu örar og í ljósi frábærra viðbragða skoði Eimskip nú að fjölga ferðum.

Þeir sem standa fyrir sölunni eru annars vegar Eimskip og hins vegar Þjóðhátíð. Miðinn selst á 3.000 krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert