„Ég er oftast talinn bjartsýnn maður, en þetta fer fram úr mínum björtustu vonum,“ segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, um aðsókn í ferjuna Akranes. Sala í ferðir ferjunnar til Eyja hófst klukkan 13 í dag, en stór hluti miða er þegar seldur.
Eftir hádegi í dag voru settir í sölu miðar í tólf ferðir til og frá Eyjum yfir Þjóðhátíð. Í hverja ferð komast hundrað manns, og var því alls um að ræða 1200 miða. Þegar hafa um 800 verið seldir og var því ákveðið að bæta við tveimur ferðum. Um 140 miðar í aukaferðirnar tvær hafa þegar selst, en aðeins eru um 45 mínútur frá því miðarnir voru settir í sölu.
Eimskip sótti nýlega til Samgöngustofu um heimild til að nota ferjuna Akranes til siglinga milli lands og Eyja yfir verslunarmannahelgi en Samgöngstofa hafnaði erindinu. Í framhaldi af þessu kærði Vestmannaeyjabær ákvörðun Samgöngustofu til samgönguráðuneytisins.
Samgönguráðuneyti felldi í dag úr gildi ákvörðun Samgöngustofu og fékk ferjan því heimild til að sigla til Eyja yfir Þjóðhátíð.
Ferjan fer á núverandi áætlun á tveggja tíma fresti. Ferðin með ferjunni tekur 15 mínútur svo áætlun hennar er mjög rúm eins og er. Þeir sem standa fyrir sölunni eru annars vegar Eimskip og hins vegar Þjóðhátíð. Miðinn selst á 3.000 krónur.