Markmiðið að gera betur en í fyrra

Þuríður Erla Helgadóttir keppir í fjórða sinn sem einstaklingur á …
Þuríður Erla Helgadóttir keppir í fjórða sinn sem einstaklingur á heimsleikunum í crossfit.

„Þetta er fyrsta árið sem að ég æfi meira allt árið af því ég tók mér smá frí frá skóla,“ segir Þuríður Erla Helgadóttir, í samtali við mbl.is, en hún er meðal keppenda á heimsleikunum í crossfit sem hefjast í dag.

Þuríður kveðst vera vel stemmd fyrir keppninni en þetta er í sjötta sinn sem hún tekur þátt á leikunum og er hún því enginn nýgræðingur. Fjórum sinnum hefur hún keppt sem einstaklingur en tvisvar tekið þátt í liðakeppni. Hingað til hefur hún þó stundað nám í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands að fullum krafti samhliða æfingum og keppni.

Erfitt að setja sér markmið

„Það fer svo mikill tími í þetta að ég ákvað að prufa að gefa mér bara tíma í þetta í staðinn fyrir að vera alltaf sein að skila verkefnum í skólanum og vera í einhverju stressi í prófunum og eitthvað,“ segir Þuríður, spurð hvort hún hafi undirbúið sig með öðrum hætti í ár en venjulega.

Þuríður Erla Helgadóttir er enginn nýgræðingur í crossfit.
Þuríður Erla Helgadóttir er enginn nýgræðingur í crossfit. Ljósmynd/Lyftingasamband Íslands

Hún segir að erfitt geti verið að setja sér nákvæmt markmið í keppninni þar sem máli skipti hvaða keppnisgreinar verða lagðar fyrir en helsta markmiðið sé þó að reyna að gera betur en í fyrra en þá hafnaði Þuríður í 19. sæti.

Fyrsti dagur leikanna runnin upp

Fyrsta keppnisgreinin í dag er svokallað hlaup-sund-hlaup þar sem keppendur þurfa að hlaupa 2,5 kílómetra, synda 500 metra í stöðuvatni og hlaupa svo 2,5 kílómetra til baka. Hefst keppnisgreinin bæði í karla- og kvennaflokki samkvæmt dagskrá klukkan átta að staðartíma í Madison, klukkan 13 að íslenskum tíma.

Keppendur fengu smjörþefinn af annarri keppnisgrein dagsins, eins konar þrautabraut á hjóli sem kallast „cyclocross,“ þegar tímataka fór fram í brautinni í gær. Þuríður kveðst spennt fyrir þeirri grein.

„Mér leist bara mjög vel á þetta og fannst þetta mjög skemmtilegt. Þetta er svona öðruvísi, maður er að hoppa yfir einhverjar hindranir og þarf að bera hjólið yfir sand og einhverjar spýtur sem er búið að raða upp,“ útskýrir Þuríður, en keppendur þurfa að fara þrjá hringi í brautinni og reyna að gera það á sem bestum tíma.

„Það verða 10 stelpur fyrir framan mig, fimm beint fyrir framan mig og fimm við hliðina fyrir framan, þannig maður þarf að vera svolítið grimmur í byrjun og reyna að komast af því það er erfitt að taka framúr í brautinni,“ segir Þuríður.

Síðasta þraut dagsins í einstaklingskeppninni er að sögn Þuríðar svokölluð snörun, ólympísk lyftingaraðferð þar sem lóðastöng er lyft frá jörðu og upp fyrir haus í einni sveiflu. Hægt er að fylgjast með leikunum í beinni og allar nánari upplýsingar um mótið er að finna á heimasíðu og samskiptamiðlum leikanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert