Rannsaka hvað gerðist í skemmtibátnum

Mennirnir voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús til aðhlynningar.
Mennirnir voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús til aðhlynningar. mbl.is/Sigurður Bogi

Rannsóknarnefnd samgönguslysa bíður nú eftir að fá í hendur lögregluskýrslu vegna skemmtibáts sem sökk undan Vogastapa, á milli Voga og Njarðvíkur, á þriðjudagskvöld.

Um leið og skýrslan er komin inn á borð til þeirra er hægt að hefjast handa við að taka skýrslur af mönnum tveimur sem voru um borð í bátnum og rannsaka slysið.

„Lögreglan byrjar á því að skoða málið og tekur lögregluskýrslu. Eins og aðstæður voru þarna þá er ekkert hægt að fara í bátinn, eða neitt slíkt,“ útskýrir Einar Ingi Einarsson, rannsakandi á siglingasviði. Rannsóknarnefndin rannsakar öll sjóslys sem verða við strendur Íslands.

Samkvæmt heimildum mbl.is má ætla að mennirnir hafi verið drukknir um borð í bátnum. Lögregla yfirheyrði mennina tvo í gær og var þeim sleppt að lokinni yfirheyrslu.

Land­helg­is­gæsl­an fékk viðvörðun laust fyr­ir klukk­an níu á þriðjudagskvöld eft­ir að bát­ur­inn hætti að senda frá sér merki.

Á sama tíma voru sjó­björg­un­ar­sveit­ir frá Suður­nesj­um á æf­ingu norður af Vog­astapa. Þær voru kallaðar til og komu að bát sem maraði í kafi. Eng­inn var sjá­an­leg­ur ná­lægt hon­um. Skömmu síðar komu þeir hins veg­ar auga á tvo menn sem höfðu náð að kom­ast í land.

Ein af þyrl­um Land­helg­is­gæsl­unn­ar var kölluð út. Hún kom á svæðið, tók menn­ina um borð og flutti þá á sjúkra­hús til aðhlynn­ing­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert